laugardagur, 28. janúar 2006

Nokkrar spurningar um söngvakeppni kvöldsins:

  • Hvað klikkaði svona svakalega í sminkinu (sérstaklega á kvenkyns kynninum)?
  • Af hverju talar karlkyns kynnirinn eins og óvenju mærðarfullur prestur (og af hverju beyglar hann munninn svona furðulega)?
  • Af hverju, af hverju í ósköpunum eru lögin upp til hópa ekki bara slök heldur beinlínis hræðileg?

miðvikudagur, 25. janúar 2006

Ég er að verða háð pistasíustykkjunum í 10-11. Óheyrilega góð - og þar sem þau eru úr gerdeigi get ég auðveldlega talið mér trú um að þau séu í rauninni brauð en ekki sætindi.

Ég er búin að hlakka til þess síðan í morgun að komast heim í kvöld, leggjast upp í sófa og horfa á Bráðavaktina - en nú var ég að uppgötva að það er engin Bráðavakt í kvöld. Við þessa uppgötvun versnaði dagurinn snarlega. Það flokkast til meiriháttar hörmunga í lífi mínu þegar Bráðavaktinni er hrint út af dagskránni.

þriðjudagur, 24. janúar 2006

Afmælisdagurinn er að klárast og ég komst einhvern veginn aldrei að því hvað ég ætlaði að gera í tilefni dagsins þannig að það varð lítið um hátíðahöld. Ákvað reyndar að tékka á sushi-staðnum í Iðu eftir vinnu en var ekkert yfir mig hrifin. Sennilega er ég frekar gagnrýnin á sushi; mér finnst t.d. ekki æskilegt að færibandið sé yfirfullt þegar lítið er að gera, það vekur bara spurningar um hversu lengi maturinn sé búinn að vera þarna, og ég fékk á tilfinninguna að sumt væri búið að vera þarna heldur lengi (og að sumt hefði reyndar aldrei verið alveg nógu gott, t.d. var túnfiskurinn afar fráhrindandi (en mér finnst góður túnfiskur æði)). Staðurinn lendir að vísu líka í óheppilegum samanburði þar sem ég er nýbúin að borða (oftar en einu sinni, m.a. dásamlega máltíð á gamlárskvöld) á miklum uppáhalds-sushi-stað mínum í London : Kulu Kulu Sushi í Brewer Street - pínulítill staður þar sem ekkert er lagt í innréttingar og engiferið og wasabi-ið er bara í plastdöllum, en allt virðist mjög ferskt og ekta.

Nú, jæja, eftir þetta ákvað ég, þrátt fyrir okurverð hérlendi, að splæsa á mig uppáhalds-kokteilnum mínum frá því á Ítalíu í sumar sem ég hafði séð á listanum á b5. Það sem ég fékk var ágætt en stóðst ekki samanburðinn við neina af þeim ólíku gerðum af þessum góða kokteil sem ég fékk á Ítalíu.

Sennilega er vandamálið að ég vildi helst vera í útlöndum. (Einhverjir lesendur hafa kannski dregið skarplega ályktun um það efni af ítrekuðum kveinstöfum yfir þessu fúla landi síðustu árin.)

En allavega: Ég er orðin þrjátíu og eins. En samt bara degi eldri en í gær þegar ég var þrítug. Svona er þetta. Einn dagur í einu breytir ýmsu. Eða ekki. Mér finnst ég svosem ekkert mikið öðruvísi en í gær. Eða fyrradag. Eða í fyrra. Eða hitteðfyrra. O.s.frv. (a.m.k. nokkur ár aftur í tímann).

fimmtudagur, 19. janúar 2006

Hversu lengi er viðeigandi að óska fólki gleðilegs árs? Ég geri það ennþá en var að uppgötva að janúar er að verða býsna langt kominn. Kannski fer að verða tímabært að hætta að láta eins og árið sé nýbyrjað. Hvað finnst ykkur?

Ég get annars ekki hætt að furða mig á því hvað tíminn líður hratt. Það að kominn skuli vera 19. jan. þýðir víst líka að það eru bara fimm dagar þangað til ég verð þrjátíu og eins - og ég er ekkert farin að ákveða hvað ég ætla að gera í tilefni af því. Það ætti svo sem að vera nógur tími enn til að ákveða það - en ef tíminn heldur áfram í hraðflugi verður afmælið liðið áður en ég veit af. Æ, jæja, þetta kemur allt í ljós.

Jólaljós - Debenhams


Jólaljós - Debenhams
Originally uploaded by ernae.
Ég þarf nauðsynlega að fara að læra á fótósjopp. Langar t.d. að geta losnað við ljósið uppi í vinstra horninu á þessari mynd.

miðvikudagur, 18. janúar 2006

Stundum er mjög fyndið hvernig fyrirsagnir raðast saman á Mikka vef. Nú er t.d. nýkomin inn færsla frá mér þar sem segir: "Mér finnst rigningin ekki sniðug." Rétt fyrir ofan er lína frá farfuglinum sem er á allt öðru máli og segir: "Mér finnst rigningin góð." Næstum eins og fram fari umræður á rss-yfirlitinu sjálfu.
Mér finnst rigningin ekki sniðug. Dauðhrædd um að hún eyðileggi snjóinn (sem er í miklu uppáhaldi hjá mér eins og áður hefur komið fram). Svell eru ekki skemmtileg (nema á mjög afmörkuðum stöðum).

Fór annars á Brokeback Mountain í gær og fannst hún stórfín. Á leiðinni út úr bíóinu íhugaði ég samt hvort mér hefði kannski fundist hún of væmin ef hún hefði verið um samband karls og konu - og í því sagði Una hikandi : "Ég var að velta fyrir mér ... það er nú kannski ekki sanngjarnt að bera þær saman ... en minnir hún ekki svolítið á Brýrnar í Madison-sýslu?" Og jú, eiginlega gerir hún það. Við fundum allavega ýmislegt sameiginlegt. Ætla samt ekki að útlista það nánar hér.

En það er ágætt að sýna að karlmenn séu líka tilfinningaverur og ennþá betra ef myndin hjálpar einhverjum að uppgötva að hommar eru líka fólk. Það veitir víst ekki af.

mánudagur, 16. janúar 2006

Soho Square - jólapakkahús


Soho Square - jólapakkahús
Originally uploaded by ernae.
Þetta er tilraun til að blogga beint úr flickr. Við Soho Square var búið að breyta húsi í jólapakka.

sunnudagur, 15. janúar 2006

Mér finnst snjórinn æði. Langbest að á veturna sé vetur en ekki eilíf grámygla.
Loksins búin að koma mér upp myndasíðu. Búin að setja inn myndir frá London og nokkrar Reykjavíkurmyndir. Ítalíumyndirnar frá í sumar koma seinna, og líka myndirnar sem ég tók í Tallinn í október. Vitnisburður um afar gott útlandaár hjá mér, og reyndar var árið almennt stórfínt. Ánægð í vinnunni, byrjaði aftur í MA-náminu mínu eftir nokkurra ára drukknun í brauðstritinu, komst heilmikið úr landi ...

Sit núna fyrir framan sjónvarpið og bíð milli vonar og ótta eftir að sjá hvort íslenski glæpaþátturinn verður góður, skikkanlegur eða hræðilegur.

Ætlaði annars alltaf að segja nánar frá Lundúnaferðinni en eftir því sem lengra líður gengur sífellt verr að komast í verkið. Æ, þetta var bara svo góð ferð. Gekk og gekk og gekk eins og við mátti búast, fór á slatta af söfnum o.þ.h. (National Gallery, National Portrait Gallery, British Museum, Tower of London, Design Museum, Tate Britain og Tate Modern), fór á þrjár leiksýningar og einn ballett, borðaði helling af alls konar góðum mat: enskum, frönskum, ítölskum, ungverskum, japönskum, taílenskum, víetnömskum, indverskum, fransk-indverskum... Og hafði það almennt afar notalegt. Besti maturinn var á Cinnamon Club á aðfangadagskvöld - einhver besti matur sem ég hef nokkurn tíma fengið. Sverðfiskur í aðalrétt, þorskur í forrétt (já, jólamaturinn minn var þorskur og hann var frábær!), fljótandi eyja með mangósósu á eftir, kaffi og konfekt, allt saman afbragð. Á þennan stað ætla ég tvímælalaust aftur og líka á Vasco and Piero's Pavilion. Algjör snilldarmatur.

Fram að þessu hafði ég bara stoppað tvo til fjóra daga í London og langaði ofboðslega að ná a.m.k. viku til tíu dögum þar. Nú hafðist það - ég var ellefu daga - en þá langar mig að vera allavega mánuð. Fæ aldrei nóg!

þriðjudagur, 3. janúar 2006

Komin heim. Eins og venjulega er nóg sem pirrar mig undireins og ég kem til landsins, og það byrjar strax og komið er inn í flugstöðina sem er vægast sagt undarlega hönnuð bygging. Mér finnst alltaf jafn merkilegt hvernig er hægt að hafa eins langar gönguleiðir á svona litlum flugvelli - fyrir utan ferðir upp og niður stiga sitt á hvað. Fyrst á dagskrá þegar ég kom inn úr vélinni var að ganga niður stiga, síðan tók við krókaleið að öðrum stiga sem þurfti að ganga upp, og þá var gengið og gengið og gengið og gengið (virtist endalaust) að þriðja stiganum þar sem leiðin lá niður á ný. Ekki að ég víli venjulega fyrir mér að ganga mikið og lengi - en svona langar leiðir inni í byggingum eins og þessum eru bara fáránlegar. Ég vorkenni fótfúnu fólki mjög að þurfa að komast þarna um.

Veðrið í Keflavik er líka vant að gleðja mann - eða þannig. Reyndar var hvorki rigning né rok núna, en í staðinn var þungskýjað og fáránlega dimmt miðað við að klukkan var ekki orðin fjögur.

Ég hef aldrei haft neitt sérstakt á móti flugrútunni en það breyttist í dag því nú er farið að spila af bandi leiðinlega ræðu flutta af smjörborinni rödd þegar lagt er af stað. "Velkomin ... bla, bla, bla ... drive through the lava fields of the Reykjanes peninsula ..." Og skelfileg tón"list" leikin undir. Oj bara.

Það verður ágætt að fara aftur í vinnuna - að öðru leyti er frekar tilgangslaust að vera á þessu landi. En ferðin var góð og ég á lengi eftir að rifja hana upp. A.m.k. með sjálfri mér - kannski líka hér á blogginu næstu daga, ef ég nenni.

Æ, já, ég var næstum búin að gleyma: Gleðilegt ár!