fimmtudagur, 30. maí 2002

Hvernig getur höfundur Nancy-bókanna verið látinn þegar það var verksmiðja sem skrifaði þær? Það er kannski sitthvað til í því að ídeal lesandi þeirra sé sjö ára en það þýðir ekki að maður þurfi að vaxa upp úr þeim um það leyti — allavega á ég góðar minningar úr menntaskóla um okkur Svansý að lesa Nancy-bækur í stærðfræðitímum.

Sumir eru duglegri að varðveita barnið í sér en aðrir.

Við lesendur Nancy-bókanna vorum reyndar misduglegar að fylgjast með í stærðfræði- og eðlisfræðitímum — tókst iðulega að finna nóg annað að gera. Meðal helstu afreka er sennilega útsaumur á jóladúkum og ýmsu þess háttar, stundum fengu strákarnir meira að segja að sauma nokkur spor. Áður hafði ég reynt að prjóna leista og vettlinga en strákarnir í bekknum voru afskaplega viðkvæmir fyrir tifinu í sokkaprjónunum og gerðu þá útlæga með frekju og yfirgangi.

Nú kynni einhver að spyrja af hverju ég hafi verið á eðlisfræðibraut fyrst ég sýndi ekki meiri áhuga á helstu námsgreinunum þar. Svarið er ákaflega einfalt: Af því bara!

Engin ummæli:

Skrifa ummæli