Missti af strætó í morgun — einu sinni sem oftar — þannig að ég fékk mér morgungöngu í vinnuna. Það var fínt, enda veðrið dásamlegt eins og það hefur reyndar verið ótrúlega marga daga í röð. Maður fer reyndar að hafa áhyggjur þegar veðrið í Reykjavík er búið að vera gott lengur en einn dag í einu — þetta hlýtur að enda með ósköpum. „Mönnum á nú eftir að hefnast fyrir þetta,“ sagði gömul kona víst einhvern tíma af svipuðu tilefni. En það er best að njóta veðurblíðunnar meðan hún varir — er á meðan er.
Samt einn galli við að missa af strætó í dag — þá gat ég ekki haldið áfram að lesa nýju dönsku bókina sem ég keypti í gær. Það eru nefnilega danskir dagar í Eymundsson og þar rakst ég á nýja skáldsögu eftir Hanne-Vibeke Holst sem mér finnst ákaflega skemmtilegur höfundur. Þessi bók heitir Kronprinsessen. Einhverjum gæti dottið í hug að hún fjallaði um þann möguleika að áður en dönsku prinsarnir fæddust hefðu Margrét og Hinrik eignast stúlku, en hún hefði verið lokuð inni á fávitahæli eða einhverju álíka. Þá væri kronprins Fredrik í rauninni ekki kronprins Fredrik heldur bara prins Fredrik. (Ætli það sé ekki hægt að koma þessari samsæriskenningu í dönsku slúðurblöðin?)
En bókin fjallar ekki um þetta, heldur um unga konu sem hefur verið aktíf í pólitík og umhverfisverndarsamtökum o.þ.h. og hefur alltaf verið „frontkæmperen“ í fjölskyldunni sinni, en er við upphaf bókarinnar að draga sig út úr því öllu því maðurinn hennar hefur fengið vinnu í Uganda í tvö ár og hún hefur ákveðið að „udfylde rollen som medfølgende hustru“ eins og það er orðað á kápunni. Þá býðst henni pludselig að verða ráðherra, og hún segir já. Er ekki komin mikið lengra í bókinni en líst vel á.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli