Ooohhh!!! Veðrið í Reykjavík er grátt og ömurlegt. Sem er óneitanlega frekar eðlilegt ástand, en þegar síðustu vikur hafa að mestu verið undantekning frá þeirri reglu er maður einhvern veginn ekki til í að horfast í augu við raunveruleikann aftur!
Lá í rúminu langt fram eftir degi og kláraði að lesa The Amber Spyglass (Ambursjónaukann), síðustu bókina í ótrúlega magnaðri trílógíu eftir Philip Pullman. Algjör skyldulesning. Fyrstu tvær bækurnar eru komnar út á íslensku og þessi á að koma fyrir jólin. (Um trílógíuna má lesa hér á heimasíðu þýðandans, Önnu Heiðu.) Þegar ég las fyrstu bókina, Gyllta áttavitann, ætlaði ég svo sannarlega að klára trílógíuna sem allra fyrst, en einhvern veginn varð ekki af því fyrr en núna. Einhver áhrif á þetta gæti haft sú einkennilega staðreynd að sumum íslenskum bókabúðum virðist ekki finnast sjálfsagt að selja breskar bækur í breskum útgáfum, og eru oftar en ekki með bandarískar útgáfur í staðinn. Óskiljanlegt. Sérstaklega þar sem það er iðulega ekki látið duga að breyta stafsetningunni í bandarískum útgáfum heldur líka föndrað við orðalag og jafnvel sitthvað fleira. Skilst t.d. að í bandarísku útgáfunni af Bridget Jones: The Edge of Reason hafi megninu af hysteríunni kringum dauða Díönu prinsessu verið sleppt, þar sem Bandaríkjumenn voru ekki taldir skilið neitt í henni. Úff! Er nauðsynlegt að gera ráð fyrir óendanlegri heimsku?
Fyrst minnst er á Bridget: Svanhildur á óneitanlega skilið að fá mörg prik fyrir leynilögguhæfileika sína — en er ekki svolítið ískyggilegt að týna nokkuð mikilvægum hlut, og þurfa að leita að honum í ruslatunnunni? Það er óneitanlega gott og gagnlegt fyrir alla að finna Bridget í sjálfum sér, en þetta er nú kannski einum of! ;)
Hef samt kannski ekki efni á því að segja neitt — eitt af mörgum skemmtilegum persónuleikaprófum sem ég hef tekið var einmitt próf um það hversu mikil Bridget maður væri í sér (því miður er þetta próf horfið af netinu). Niðurstaðan mín var: „a tie between a little bit of Bridget and very, very Bridget“!!! Á einmitt reglulega svona „very, very Bridget“ daga. Rek það ekki nánar í bili.
– – –
Sveinn Guðmarsson hefur villst hingað inn á síðuna um daginn; síðan hans er einmitt ein af þeim sem ég les alltaf öðru hverju. Sveinn vinnur með Svanhildi vinkonu minni, sem kemur reglulega við sögu hérna á síðunni (sjá t.d. hér að ofan) en ég er bara nýbúin að uppgötva að bróðir hans sem bloggar líka (reyndar nokkuð stopult en bloggar þó), er Bjarni Guðmarsson sem vinnur einmitt með mér hjá Eddu. Heimurinn er ótrúlega lítill.
Tek innilega undir með Sveini, sem tekur undir með Ármanni, um að konur séu líka menn; fyrir mér hefur það einmitt alltaf verið femínískt prinsipp, og ég næ ekki nokkrum tengslum við hugsunarhátt sem líkar ekki að aðalmerking orðsins menn sé einmitt karlar og konur. Heyrði fyrir nokkru síðan sagt frá málþingi um biblíumál, þar sem einhver hefði kvartað mikið yfir því óheyrilega vandamáli (að eigin mati) að í biblíunni væri maður ýmist notað um mannkynið almennt eða eingöngu um karla, og vildi að minnsta kosti hafa „samræmi“ í þessu! Jæja, já. Þótt ég sé prófarkalesari, og þar af leiðandi fremur illa haldin af samræmisþráhyggju, er engin leið að ég geti skilið þessa hugsun; eitt af því sem mér finnst svo frábært við tungumálið er einmitt það að eitt og sama orðið getur haft margar mismunandi merkingar. Er hrædd um að það yrði ótrúlega leiðinlegt að vera til ef það ætti að ráðast gegn öllu „ósamræmi“ af þessu tagi.
– – –
Er búin að vera ansi léleg við að blogga þessa síðustu viku, en var líka frekar svefnlaus eftir Akureyrarferðina um síðustu helgi, og alltof þreytt á kvöldin til að kveikja á tölvunni, skríða um gólfið til að taka símnúmerabirtinn úr sambandi og stinga módeminu í samband, bíða eftir því að nettengjast o.s.frv. Hefði sofnað fyrir framan tölvuna áður en mér hefði tekist að byrja að blogga.
Svefnþörfin er ekki það eina sem fór illa út úr Akureyrarferðinni, því vísakortið mitt er ennþá í taugaáfalli! Sem er reyndar ekkert nýtt, það þarf eiginlega á reglulegri áfallahjálp að halda. En nú á ég þó nýjan jakka og buxur og stígvél - sem er verulega skemmtilegt! Ekki síst þegar maður er búinn að líta í kringum sig eftir þessu öllu hér í höfuðborginni án þess að finna neitt sem hentar. Svo labbar maður inn í búðir í storbyen Akureyri og finnur samstundis eitthvað sem mann langar í og passar auk þess á mann! :) Er þá nokkuð annað til ráða en að níðast á vísakortinu?
Fyrir utan þessi áföll (?!) — og að þeim meðtöldum — var mjög gaman fyrir norðan. Kári bróðir minn (2. f.v. í efri röð á þessari mynd; 3. f.v. í efri röð á þessari) varð stúdent og allt í kringum það var ákaflega skemmtilegt. Á sautjándanum var ég eiginlega í allsherjar nostalgíukasti, en þekki líka alveg „átjándablúsinn“ sem Svansý skilgreindi um daginn. Um það leyti sem ég var að verða stúdent fannst mér eins og ég væri komin að dyrum sem ég þyrfti að ganga í gegnum, en að þegar ég yfir þröskuldinn væri komið myndi ég hrapa út í óendanlega auðn og tóm!
Það var skemmtileg uppgötvun að komast að því að það væri þrátt fyrir allt líf eftir MA — og að það væri meira að segja skemmtilegra í háskólanum en í MA (alla vega ef maður fór í íslensku!).
En stúdentsafmælin eru óheyrilega skemmtileg — veit ekki hvar Svansý hefur verið ef hún þykist ekki hafa skemmt sér á eins árs stúdentsafmælinu. Mér fannst allt að því skemmtilegra að verða eins árs stúdent en að verða stúdent! Í síðarnefnda tilvikinu var maður að kveðja alla, en í því fyrrnefnda að hitta alla aftur! Fimm ára stúdentsafmælið var líka óheyrilega skemmtilegt, og nú ríkir bara tilhlökkun eftir tíu ára afmælinu. Þó pínu aldurskrísa líka! Þótt mér hafi svo sem ekki fundist tíu ára stúdentarnir elliær gamalmenni þegar ég útskrifaðist, virtist þetta þó vera tiltölulega fullorðið fólk. Finnst einhvern veginn frekar langt í að það sama geti farið að gilda um sjálfa mig.
Rakst á Palla, bekkjarbróður okkar Svansýjar úr MA, núna á föstudaginn og settist með honum á kaffihús sem var ofsalega gaman. Meðal þess sem við Palli erum sammála um er að Reykjavík sé stórlega ofmetin sem stórborg og að allir Íslendingar ættu að fá ferðastyrk til að komast til útlanda um fimm sinnum á ári. Palli ætlar líka að taka þátt í því með okkur Svansý að stofna grasrótarsamtökin sem við vorum farnar að leggja drög að. Þetta verða alvöru grasrótarsamtök, því helsta baráttumálið verður að fá aftur gras á Ráðhústorgið á Akureyri! Þegar við vorum lítil var grasflöt á miðju torginu, með lágri girðingu í kring, og þar sat fólk á góðviðrisdögum og borðaði ís. En sú paradís varð ekki eilíf, því grasinu var útrýmt og torgið hellulagt í staðinn. Löngu kominn tími til að ráðast gegn þessu umhverfisslysi.
Meðal fyrri afreka okkar þriggja er að á sínum tíma söfnuðum við saman ýmsum gullkornum bekkjarins okkar í svokallaðar handbækur x-bekkjarins, öðru nafni the x-files sem voru settar inn á netið fyrir nokkrum árum og hefur blessunarlega dagað uppi þar. Hélt að ég myndi andast úr hlátri þegar ég skoðaði þær aftur. Sennilega eru þær frekar ófyndnar fyrir þá sem ekki þekkja til, en hverjum er ekki sama?
Engin ummæli:
Skrifa ummæli