mánudagur, 22. júlí 2002
Í gær dreif ég mig loksins í Gerðarsafn en ég var búin að vera á leiðinni á Síld og fisk sýninguna lengi. Hún var mjög fín; vel þess virði að skoða, þannig að ég var glöð og kát þegar ég fór af safninu. Þá lá leiðin á kaffihús hinum megin við gjána sem reyndist býsna gott (þótt það sé í ljótustu götu í heimi) og þegar ég fór þaðan var ég ennþá nokkuð ánægð með lífið og tilveruna. Síðan hugsaði ég með mér að fyrst ég væri komin í Kópavoginn væri sennilega best að nýta ferðina, drífa sig í leiðinda-verslunarmiðstöðina þeirra og athuga hvort það væri sjens að finna einhver sæmileg föt á útsölu. Hefði betur látið það ógert. Sennilega var þetta nokkuð vonlaust frá upphafi þar sem mér finnst verslunarmiðstöðvar almennt leiðinlegar, en sitthvað fleira kom þó til. Það lítur nefnilega út fyrir að ef maður fer ekki á útsölur strax á fyrsta degi sé ómögulegt að finna föt í öðrum stærðum en „small“. Og þegar maður loksins sér eitthvað í sínu númeri reynist það samt sem áður hannað í „small“, þ.e. á manneskjur sem eru eins og tannstönglar, þótt flíkin hafi verið stækkuð upp. Svona tilraunir til verslunarferða leiða sjaldnast til annars en þess að mér finnst ég óendanlega afbrigðileg — en einhverra hluta vegna hefur mér heyrst að ófáir kannist við þetta vandamál af eigin raun. Getur verið að það séu fataframleiðendurnir sem hafa svolítið brenglaða sýn á tilveruna?
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli