Í vinnunni er starfræktur óformlegur gönguklúbbur sem klífur fjöll eftir vinnu á fimmtudögum. Ég dreif mig loksins með í gær, vopnuð Síríus-suðusúkkulaði. Algjör lífsnauðsyn í svona ferðum, og það er svindl að vera með annað en tvöfaldan pakka í smjörpappír. Það var haldið á Móskarðshnjúka og ferðin var afbragðsskemmtileg. Þetta var bölvað púl á tímabili, eins og svona fjallgöngur eru ósjaldan — blótsyrði og súkkulaði drógu mann áfram síðustu metrana á leiðinni upp — en það verður alltaf þess virði þegar maður er kominn. Annars eru helstu tíðindi ferðarinnar áreiðanlega þau að tímaáætlun Kristjáns B. stóðst, en hann varð alræmdur eftir Hengilsgöngu um daginn sem hann sagði að myndi taka þrjá tíma en tók í rauninni fimm. Í þetta skiptið hljóðaði áætlunin upp á þrjá tíma (ætli hann áætli alltaf þrjá tíma?) og stóðst næstum því upp á mínútu.
Mjög ánægð með ferðina — það er líka svo gott að komast öðru hverju út í sveit! ;)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli