föstudagur, 23. ágúst 2002
Ég stakk af úr vinnunni um hádegi til að fara á fund í stjórn Aðstoðarmannasjóðs H.Í. Er komin aftur að skrifborðinu mínu núna, en það er mesta furða. Ferðin til baka gekk nefnilega fremur brösulega, og eru strætóferðir mínar þó ekki alltaf tíðindalausar. Þegar fundurinn var búinn var ég rétt búin að missa af fimmunni, og þar sem ég nennti ekki að hanga á strætóstoppistöðinni í tuttugu mínútur ákvað ég að ganga niður í bæ og taka strætó þar. Þegar niður í Austurstræti var komið var tvisturinn á stoppistöðinni, og þar sem hann fer líka upp á Suðurlandsbraut stökk ég að sjálfsögðu til og náði vagninum rétt áður en hann renndi aftur af stað. Svo settist ég niður og fór að lesa í rólegheitum. Eftir dálítinn tíma leit ég upp úr blaðinu, og hvert er ég þá komin? Lengst vestur á Vesturgötu! Ég tók semsé strætó í vitlausa átt og var ekkert að flýta mér að uppgötva það. En þetta fór allt vel á endanum, ég er allavega komin aftur í vinnuna núna.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli