laugardagur, 21. september 2002

Kannski ætti ég að breyta heitinu á þessari síðu í Laugardagsblogg. Alla vega virðist mér ganga heldur illa að blogga á öðrum vikudögum núorðið, enda fer heilastarfsemin að mestu í vinnuna. Þaðan er það helst að frétta að ég er ekki lengur í orðabókinni; „lánstíminn“ á mér rann út á mánudaginn eftir nokkrar framlengingar, þannig að ég er komin aftur í önnur verk, þar á meðal þau sem ég vanrækti meðan á orðabókarvinnunni stóð.

Sú lífsreynsla að verða „lánsgripur“ var verulega athyglisverð. Lánuð, leigð, gerð út af öðrum í undarlegum tilgangi … Að því kom að augu mín lukust upp: ég var greinilega komin í vændið! Hlutgerving mín varð þó fyrst alger þegar framlenging lánstímans réðst af úrslitum í einhverjum fótboltaleik, og ég varð því eins konar vinningur í veðmáli!!!

(Reyndar var ég ekki eins viljalaust verkfæri og ég læt! Það er frábært fólk að vinna við orðabókina, og mér fannst ofsalega gaman að vinna með því. Auk þess blundar i mér orðabókapervert sem gladdist mjög yfir því að fá að fikta pínu við orðabókina!)

Annars er það helst að frétta af mér og vinnunni að ég er bara ráðin fram að mánaðamótum og það er ennþá óljóst um framlengingu. Þannig að kannski verð ég atvinnulaus eftir rúma viku. Ef einhver veit um skemmtilega vinnu handa furðufugli eins og mér má alveg láta mig vita (þótt ég vilji samt helst vera áfram þar sem ég er núna).


P.S. Hilmu og Stefáni má benda á hjálpina í Bloggernum þar sem þetta svar fæst við vandamáli þeirra.

P.P.S. Ég ætla ekki að bætast í hóp þeirra bloggara sem hæðast að nýja bakgrunninum á síðunni hans Stefáns og telja hann afbrigðilega ljótan – þvert á móti finnst mér liturinn frekar sætur!

P.P.P.S. Þórdís átti alltaf að vera á listanum yfir flesta uppáhaldsbloggarana mína hérna til hliðar. Nú er hún loksins komin þangað.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli