Jæja! Það er orðið langt síðan málfarslöggan í mér hefur fengið útrás á þessari síðu, en að gefnu tilefni ætla ég að tjá mig svolítið um ágætisorðið blogg. Í Kastljósviðtalinu við Stefán og Salvöru í kvöld var lýst eftir íslensku orði í staðinn fyrir „útlenskuna“ blogg og óskaplega margir virðast vera með böggum hildar yfir orðinu. Jú, jú, vissulega er uppruninn erlendur en sömu sögu er að segja um svo ótalmörg önnur orð sem hafa síðan unnið sér þegnrétt í íslensku máli. Það á ekki bara við um tuttugustu aldar tökuorð eins og jeppa og kornflex heldur ótrúlegustu orð önnur. Nokkur dæmi: prestur, ferskja, perla, súkkulaði, berklar, skúffa, helvíti, bók. Já, meira að segja bók!
Þótt orð sé tekið úr öðru máli er nefnilega ekki þar með sagt að það sé hrá sletta.
Hugsanlega finnst mörgum blogg líta undarlega út á prenti, en það myndu hversdagsleg orð eins og borð og stóll líka gera ef þau bæri ekki eins oft fyrir augu Íslendinga og raun ber vitni. Við stafsetninguna á blogginu er ekkert að athuga og hún hefur þegar verið aðlöguð íslensku; orðið er ritað með tveimur g-um en ekki einu eins og gert er í ensku (blog). Það eitt og sér dugar að vísu ekki til að orðið geti talist íslenskt. Hægt er að stafsetja hvaða útlenskt orð sem er upp á íslensku – jafnvel orð sem er mikið notað í daglegu máli – án þess að það verði þar með íslenskt. Sem dæmi má nefna upphrópanirnar sjitt og dísess eða djísess eða dísöss eða djísöss, sem geta í allra besta falli talist hæpin íslenska og varla það.
Nei, fleira þarf að koma til en stafsetningin. Til að orð teljist fullgilt í íslensku máli er þess krafist að það falli að málkerfinu, þ.e. beygingakerfi og hljóðkerfi, og þessa kröfu uppfyllir bloggið fullkomlega. Orðið brýtur engar íslenskar hljóðkerfisreglur. Hvert einasta hljóð í því er til í íslensku og það fullnægir svokölluðum hljóðskipunarreglum prýðilega, þ.e. hljóðin i því raðast ekki saman á neinn þann hátt sem er ankannalegur í íslensku. Orðið byrjar á bl + sérhljóða eins og ótalmörg íslensk orð, t.d. blað, blaðra, blár, blauður, blekking, blindur, blíða, blóm, blót, blundur, og blygðun.
Og þótt orðin sem enda eins, þ.e. á sérhljóða + gg, séu færri eru þau engu að síður allnokkur til, þar á meðal: brugg, bygg, dregg, egg, dögg, hnegg, högg, plagg, sigg, og skegg
Um beygingakerfið þarf ekki að hafa mörg orð, allir virðast líta á blogg sem hvorugkynsorð og beygingin er ekkert vandamál:
blogg, um blogg, frá bloggi, til bloggs
Auk þess bætir blogg við sig greini eins og ekkert sé:
bloggið, um bloggið, frá blogginu til bloggsins
Stóran aukaplús fær bloggið svo fyrir að vera góður grunnur fyrir virka orðmyndun. Nafnorðið bloggari er notað um þann sem stundar verknaðinn sem lýst er með sögninni að blogga, og af þessum orðum hafa svo orðið til fjölmörg önnur orð, t.d. bloggheimar og bloggsíða, að veslings aumingjabloggaranum ógleymdum.
Og þetta eru bara nokkur blogg-orð af mörgum; á þessari bloggsíðu hefur til dæmis verið stunduð meðvituð nýyrðasmíð þar sem vakið hefur verið máls á orðunum bloggfall og bloggvís, og auk þess notaðar ýmsar fleiri skemmtilegar samsetningar; lausleg skönnun leiddi í ljós orð eins og bloggfróður, blogglatur og bloggpabbi.
Er niðurstaðan ekki augljós? Við höfum til taks stutt og þjált orð sem fellur vel að íslensku málkerfi. Ekkert mælir gegn því að blogginu verði veittur íslenskur ríkisborgararéttur hið fyrsta. :)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli