föstudagur, 11. október 2002

Nafnaskrár hafa lagt undir sig líf mitt! Skilaði einni af mér í gær, er að föndra aðra í vinnunni, og eina enn í „frístundum“. Jón Jónsson, Jón Jónsson, Jón Jónsson, Jón Jónsson á Arnarvatni, Jón Jónsson á Fossvöllum ...... Úff! Flestar nafnaskrár eru svo sem einföld handavinna að mestu, en ekki nafnaskráin við Ameríkubréfin sem ég er að reyna að klára núna. Það vill nefnilega svo undarlega til að þegar fólk skrifar bréf hugsar það ekkert út í að það væri gustuk að gera sæmilega grein fyrir því fólki sem minnst er á, því það er ef til vill og kannski hugsanlegt að bréfin verði gefin út hundrað árum seinna, og þá þurfi einhver vesalingur að gera nafnaskrá. Helstu áhyggjur mínar um þessar mundir snúast um spurningar á borð við:
Hver ætli „gamla Margrét“ sé sem „fór suður í Minnesota í vetur [1902] með Sigríði dóttur sinni“? Hvers son var séra Magnús á Gilsbakka? Og hlýtur „Magnús prestur“ sem Suddu-Jón talar um ekki að vera sá Magnús? Hver er „Aðalsteinn sem var hjá Laxdal“?!
Nú er ég búin að finna út það sem ég get með þeim gögnum sem ég hef tiltæk; þarf að fara að koma mér í bókhlöðuna til að fletta upp í Prestatali, Ættum Þingeyinga, Borgfirzkum æviskrám o.s.frv. Stöðugt fjör í spæjaraleik!

Engin ummæli:

Skrifa ummæli