Líf mitt er púsluspil. Eiginlega skipti ég svo oft um vinnu að mér er næstum hætt að finnast frásagnarvert þegar það gerist. Frekar vön að púsla saman tveimur mánuðum á einum stað, þremur á öðrum og svo framvegis. Annars var ég búin að vera fimm mánuði hjá Eddu sem er næstum því persónulegt met. Fyrst var ég reyndar bara ráðin í þrjá mánuði, svo var tvisvar framlengt um mánuð, en seinni framlengingin rann út um síðustu mánaðamót. Þá hafði Erna vistaskipti einu sinni enn (einu sinni las ég bók sem heitir Vala hefur vistaskipti, sem er stuðlað og þar af leiðandi mun flottari setning – ég ætla samt ekki að skipta um nafn til að fella það að þessu orði (vistaskipti) sem er svo einkennandi fyrir líf mitt). Í vor vann ég hjá þinginu og var svo heppin að það vantaði aftur afleysingamanneskju í skjalalesturinn núna – fram að áramótum. Hvað svo verður veit nú enginn, vandi er um slíkt að spá ... Svona er að vera nútíma farandverkamaður.
En það er sem sagt vika síðan ég fór aftur að vinna hjá skjaladeild nefndasviðs Alþingis, og sit þar nú, með þetta fína útsýni yfir Austurvöll; þinghúsið og dómkirkjan blasa við út um gluggann hjá mér. Ætti ég kannski að setja mér það markmið að vera aðeins á vinnustöðum með góðu útsýni hér eftir?! Í Eddu horfði ég yfir Laugardalinn og sundin blá, Akrafjall, Skarðsheiði og Esjan blöstu við – og síðastnefnda fjallið varð næstum því fallegt þegar maður sá svona vítt og breitt allt um kring.
Eiginlega væri efst á óskalistanum að geta blandað þessum tveimur vinnustöðum saman: Viðfangsefnunum hjá Eddu, starfsandanum hjá þinginu og samstarfsfólki af báðum stöðum. Hvernig ætli ég geti möndlað það?
Engin ummæli:
Skrifa ummæli