Mæli eindregið með bréfi Uppsalabloggarans til Wittgensteins, og lýsi yfir fullum stuðningi við bréfritara í viðureigninni við leiðbeinandann og konurnar á Skattekontoret og allar aðrar manneskjur sem settar voru í heiminn til að ergja annað fólk og flækja líf þeirra. Annars virðist ferðin á Skattekontoret hafa gengið framar vonum – Þórdís, heldurðu að tæknin sem þú segist vera farin að beita virki líka á Íslandi? Ef svo er væri ég alveg til í að fá námskeið í henni. Ég er næstum því farin að forðast að leita upplýsinga um ýmis praktísk mál, því manneskjur sem ættu að veita öðrum slíkar upplýsingar virðast ótrúlega oft vera tölvur í dulargervi: maður fær ekkert að vita nema maður setji beiðnina fram á hárréttu formi (reglurnar um hið hárrétta form eru þó leyndarmál), og takist manni að komast fram hjá þeirri hindrun er engu svarað nema nákvæmlega því sem spurt var um. Síðar kemur kannski í ljós að maður hefði þurft að vita eitthvað fleira – en gat bara ekki spurt, því maður vissi ekki hvað maður þurfti að vita, og fékk þar af leiðandi ekki að vita neitt, og neyddist þess vegna til að gera sér enn fleiri ferðir en ella á leiðinlegar skrifstofur í ömurlegum erindagjörðum ... Auk þess virðist gagnabankinn í þessum manntölvum ekki endilega samtengdur, því spyrji maður tvær er engan veginn sjálfgefið að maður fái sömu svör.
Almáttugur, hvað ég er bitur í dag!!! Er ekki einu sinni komin að leiðbeinandamálunum. Þórdís, auðvitað áttu að taka meira mark á sjálfri þér en leiðbeinandanum. Æ, æ, ég vil ekki einu sinni hugsa til þess að ég þurfi einhvern tíma að finna mér einhvern leiðbeinanda – þ.e. ef mér tekst einhvern tíma að komast að því um hvað mig langar að skrifa MA-ritgerð. Kannski ég ætti að reyna að beita Wittgenstein-aðferðinni. Er kannski ekki alveg nógu spennt fyrir fjallakofa í afskekktum dal í Noregi, en gæti kannski fundið eitthvert tilbrigði við stefið. Verst að ég þyrfti sennilega að fá mér tímavél í leiðinni.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli