Enginn bauð mér bílfar norður yfir heiðar þannig að ég neyddist til að kaupa mér flugmiða á áttaþúsundkall (nota bene bara aðra leiðina) sem mér finnst óheyrilegt okur. Vísakortið mitt mátti varla við þeim útgjöldum, sérstaklega miðað við að eftir þvæling minn um bæinn síðustu daga þyrfti það helst á áfallahjálp að halda vegna ofnotkunar – en reyndar er það nokkuð reglulegur viðburður. Sennilega er taugaáfallið orðið krónískt. Æ, æ.
Af bæjarröltinu er sem betur fer önnur gleðilegri afleiðing, semsé sú að ég komst (blessunarlega) í dálítið jólaskap (loksins!) þrátt fyrir óheyrilegan skort á jólalegu veðri. Ég ætla rétt að vona að það snjói fyrir norðan, þrátt fyrir að því sé víst ekki spáð. En ef jólin eru ekki rétti tíminn fyrir kraftaverk veit ég ekki hvenær þau ættu helst að gerast.
Jæja, ég flýg rétt fyrir hádegi og var að klára að pakka niður – að sumu leyti skynsamlega en að öðru leyti ákaflega óskynsamlega. Af hluta af farangrinum mætti halda að ég ætlaði að vera fyrir norðan í þrjá mánuði en ekki bara eina viku. Og það er ekki beinlínis glóra í því að taka með sér ferna skó, þar af þrenna háhælaða. En mér er alveg sama.
Klukkan er víst að verða þrjú þannig að sennilega er best að fara að koma sér í rúmið. Trúlega verður bloggið a.m.k. stopult næstu daga – tíminn einn leiðir í ljós hvort algjört bloggfall verður. Óska hér með öllum gleðilegra jóla, farsæls komandi árs o.s.frv.
Jólakort? Æ, kannski skrifa ég svoleiðis fyrir næstu jól. Eða þarnæstu. Eða bara einhvern tíma seinna.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli