Ég er ennþá í skýjunum yfir föstudagskvöldinu! Ég ákvað nefnilega að þótt það sé fullkomlega ómerkilegt að verða 28 ára sé engin ástæða til að láta það koma í veg fyrir að maður skemmti sér, þannig að ég hélt afmælispartí. Eiginlega hélt ég ekkert upp á afmælið mitt um árabil, þ.e. eftir að ég komst af barnsaldri, en á síðustu árum hef ég farið að stunda meiri hátíðahöld, og þetta er þriðja árið í röð sem ég held svolítið almennilega afmælisveislu. Nú er spurning hvort ég á að taka pásu á næsta ári til að taka þrítugsafmælið með stæl, eða hvort ég ætti frekar að halda virkilega vel upp á næsta afmæli og sleppa svo þrítugsafmælinu. Eða halda upp á hvorugt afmælið, eða hvort tveggja, eða ... Veit ekkert hvað verður, enda er nægur tími til að velta vöngum yfir því.
En afmæli eru allavega prýðileg ástæða til að fá fólk í heimsókn til sín, og þegar fullt af skemmtilegu fólki mætir með góða skapið getur það varla klikkað.
Ég er búin að ganga um með aulalegt bros alla helgina yfir því hvað ég hafði gaman af þessu, og hvað mér finnst vinir mínir óendanlega skemmtilegir og svo framvegis, og svo framvegis!!! Nú er bara að vona að allir aðrir hafi skemmt sér eins vel – eða þó ekki sé nema hálft eins vel, það væri feikinóg samt til að samanlögð ánægja yrði umtalsverð! :) Þakka öllum sem mættu kærlega fyrir komuna og skemmtunina.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli