þriðjudagur, 14. janúar 2003

Mér finnst ég óheyrilega dugleg! Búin að borða morgunmat á næstum hverjum degi í viku, hef alltaf verið með nesti í hádeginu sömu daga og hef þar að auki verið óvenjudugleg að elda á kvöldin. (Núna er ég að elda baunapottrétt með appelsínum og rúsínum – hljómar kannski pínu undarlega en ég held að þetta verði nokkuð gott.) Vera má að öllum finnist þetta sjálfsagt og eðlilegt framferði, en þess skal gætt að ég er ekki alltaf eðlileg. Ekki að öllu leyti, a.m.k. Og dugnaður minn á þessum sviðum er stundum mjög stopull.

Já, og svo er ég búin að ganga alveg helling. Það kemur kannski fæstum á óvart sem þekkja mig og hafa löngum furðað sig á tilhneigingu minni til að arka um bæinn þveran og endilangan – en ég er búin að vera með allra duglegasta móti upp á síðkastið. Helgast að nokkru af því að það stendur ekki nógu vel á strætó upp í MH; það tekur mig um hálftíma að komast þangað með því móti og ég er álíka lengi að ganga, þannig að ég hef hneigst til að nota tvo jafnfljóta á þessum ferðum mínum. Afleiðingin er að þá daga sem ég er að kenna (ýmist þrjá eða fjóra á viku) hreyfi ég mig alveg klukkutíma lengur en ella. Auk þess er „kjaftaklúbburinn“ minn að norðan búinn að stofna e.k. gönguklúbb sem hóf göngu sína með eins og hálfs tíma göngu í gærkvöld.
Og ég sem strengdi ekki eitt einasta nýársheit!

Engin ummæli:

Skrifa ummæli