þriðjudagur, 11. febrúar 2003

Er í blogglægð eins og einhverjir hafa ef til vill tekið eftir. Það stendur kannski til bóta. Kannski ekki. En trúlega er rétt að taka fram að það er alls ekki merki um að ég sé í lægð að öðru leyti – þvert á móti hefur heilastarfsemin að öllu leyti verið með skásta móti upp á síðkastið. Tengist því kannski eitthvað að það sem af er árinu er ekki búið að vera margfalt vinnuálag á mér, sem er umtalsverð tilbreyting og ég held að mér hafi ekki veitt af að anda svolítið. Það er búið að jaðra við heilmikið frí að rúmur mánuður hafi liðið þar sem ég hef bara verið í cirka hálfu starfi (sem er reyndar meiri vinna), og einum kúrsi í háskólanum, og að sinna einhverju fleiru ... OK, kannski er þetta ekki beinlínis búið að vera frí, en þetta eru allavega mun meiri rólegheit en ég hef kynnst lengi.

Síðustu tvö árin hef ég nefnilega unnið stanslaust (yfirleitt meira en fulla vinnu) á skrilljón vinnustöðum (yfirleitt á álagstímum) án þess að eiga frí einn einasta dag fyrir utan almenna frídaga (þ.e. á jóladag og svoleiðis). Nema núna um jólin tók ég heila tvo orlofsdaga. Það var algjört nýmæli. Jólin á undan tók ég reyndar svolítið frí en vann það af mér, þannig að það telst varla með. Sumarfrí? Hvað er það? Kannski eignast ég einhvern tíma svoleiðis þegar ég verð stór. En ég hef allavega brugðið umtalsvert út af vananum þennan síðasta mánuð. Og ég finn ekkert smávegis hvað ég hef haft ótrúlega gott af því – allt í einu fór ég til dæmis að fá alls konar hugmyndir, meira að segja eina MA-ritgerðarhugmynd, sem ég veit svosem ekkert hvort ég á eftir að nota, en það er ekki aðalatriðið. Bara gott að finna að maður er ekki heiladauður!

Nú lítur hins vegar út fyrir að „fríinu“ sé að ljúka, það eru aftur farin að hellast yfir mig verkefni sem er líka hið besta mál. Maður þarf víst alltaf einhverja fjandans peninga til að lifa af!

Jæja, best að fara að gera eitthvað. Meðmæli dagsins fær Hildigunnur sem á stórleik á blogginu í dag, einu sinni sem oftar, og skrifar m.a.:

„Var í sálfræði áðan, hvar við fengum að horfa á indælis myndband um lítil börn sem grenja og skíta. Það heyrðust frygðarstunur frá bekkjarsystrum mínum sem greinilega þráðu að poppa úr sér krakka á stundinni. Ég kúgaðist og fann fyrir bylgju af skuldbindingafælni sem smaug hægt og rólega inn í öll líffærakerfin. Svo beit ég mig óvart í tunguna.“

Engin ummæli:

Skrifa ummæli