fimmtudagur, 20. mars 2003

Alveg sammála Steinunni; aukafréttatíminn í sjónvarpinu um miðnættið var virkilega óhuggulegur. Ég sá upphafið á honum fyrir tilviljun; augun urðu á stærð við undirskálar strax í byrjun en voru orðin ennþá stærri en Sívaliturn eftir nokkrar mínútur; svo forviða var ég á þessu uppátæki. Ákvað svo að hætta að horfa áður en ennþá verr færi fyrir augunum. Og skapinu. Nógu ósmekklegt fannst mér að vera með aukafréttatíma, sem virtist eiga að þjóna þeim tilgangi einum að sýna upphaf stríðsins í beinni útsendingu ef fréttastofan yrði „heppin“ – en niðurtalningin sem Steinunn minntist á sló allt út. „Nú er hálftími þangað til fresturinn rennur út ... Nú eru tuttugu mínútur þangað til ...“

Annars er ekki rétt að eyða of mikilli orku í að fárast yfir fréttastofunni; það sem er að gerast í heiminum er auðvitað aðaláhyggjuefnið. Minni á mótmælin á Lækjartorgi kl. 17.30 í dag. Vona að sem allra, allra flestir mæti til að fordæma þetta viðbjóðslega stríð.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli