laugardagur, 1. mars 2003

Nú verða lesnar auglýsingar. Á morgun (laugardag) ætlar Félag íslenskra fræða að halda frábært ævisagnamálþing. Það verður í Rúgbrauðsgerðinni (Borgartúni 6) og stendur frá morgni til kvölds; fyrsti fyrirlesturinn byrjar klukkan 9.30 og svo verður haldið áfram fram eftir degi. Fyrirlestrarnir verða ellefu alls, að þeim loknum taka við pallborðsumræður, og síðasti dagskrárliðurinn er svo „léttar veitingar“ milli kl. 18 og 19. Vona innilega að sem flestir mæti.
Best að ég fari að koma mér í rúmið svo ég verði ekki alveg ónýt á morgun, og haldi kannski smávegis einbeitingu í sessjónunum tveimur sem ég þarf að stjórna. Finnst ég vera búin að stunda óþarflega mikið af verklegum tilraunum upp á síðkastið í því hversu lítinn svefn hægt er að komast af með; síðustu nótt vann ég til dæmis fram yfir fjögur, sem er kannski ekki alveg nógu sniðugt þegar maður þarf að byrja að kenna kl. 8.10. Sem betur fer tókst mér að komast á lappir og drösla mér af stað á tilsettum tíma – en þetta er ekki alveg nógu sniðugt. Veit ekki hvar þetta endar. Jú, trúlega endar þetta með ósköpum. Vona bara að það sé ennþá langt þangað til.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli