föstudagur, 2. maí 2003

Þótt líf mitt virðist stundum óskipulagt og í lausu lofti lýtur það engu að síður ýmsum reglum. Nú er til dæmis enn og aftur komið að fasta liðnum: Erna byrjar í nýrri vinnu. Reyndar er vinnan ekki glæný í þetta skiptið því ég er semsagt komin aftur til Eddunnar. Framborð á skrifborðum er ekki yfirþyrmandi mikið, en sjálfsbjargarviðleitnin blossaði upp og ég fann mér borð sem ég gat setið við í dag. Svo er Bjarni víst að yfirgefa svæðið í mánuð, þá get ég lagt undir mig borðið hans á meðan.

Kennslunni lauk á miðvikudaginn, og ég náði blessunarlega að fara yfir öll heimaverkefni og svoleiðis dót áður en henni lauk. Kannski ég ætti að reyna að telja saman hvað ég er búin að fara yfir mörg verkefni á önninni – held að talan yrði ansi há. Trilljón, skrilljón eða eitthvað í þá veru. Nú er bara eftir að leggja fyrir próf; við kennararnir hittumst uppi í skóla í morgun og púsluðum saman kvikindislegum prófspurningum (!) – nei, nei, ég held að þetta verði allt ákaflega sanngjarnt..

Engin ummæli:

Skrifa ummæli