miðvikudagur, 9. júlí 2003

Það er stórhættulegt fyrir mig að ganga framhjá fornbókabúðum – ég tala nú ekki um að reka nefið inn fyrir dyragættina. Eða öllu heldur: það er hættulegt fyrir vísakortið mitt og plássið (þ.e. plássleysið) í bókahillunum mínum. (Mig vantar fleiri bókahillur – reyndar er það krónískt vandamál.) Í dag rölti ég af rælni við hjá Gvendi dúllara á Klapparstígnum og rakst þar að sjálfsögðu á ýmsar bækur sem mig dauðlangaði í. Lít á það sem meiriháttar sjálfsaga-afrek að hafa bara keypt tvær. Og báðar vantaði mig nauðsynlega – en ekki hvað?!

Önnur bókin er Næturstaður eftir Snjólaugu Bragadóttur, fyrsta skáldsagan hennar, gefin út 1972. Þá á ég samlede værker Snjólaugar næstum því komplett, vantar bara síðustu bókina, Setið á svikráðum (frá 1986). En hún hlýtur að verða á vegi mínum fljótlega. Í nokkur ár er ég búin að ætla að skrifa ritgerð um bækur Snjólaugar, viðtökur þeirra og þvíumlíkt – með undirtitlinum „Eru ástarsögur mannskemmandi?“ Byrjaði meira að segja að safna að mér efni einhvern tíma, og fann m.a. blaðaviðtal við Snjólaugu undir fyrirsögninni: „Bækur mínar eru ekki mannskemmandi“! Klæjar reglulega í fingurna að komast í þetta; vonandi tekst mér að drífa í því áður en alltof langt um líður.

Seinni bókin sem ég keypti heitir Matreiðslubókin þín – í máli og myndum. Hún er órjúfanlegur hluti af bernsku minni og þess vegna keypti ég hana; þetta er þýdd matreiðslubók frá 8. áratugnum – einhverra hluta vegna stendur ekki í bókinni sjálfri hvenær hún kom út, en í Gegni sé ég að það hefur verið 1975 – árið sem ég fæddist! Við höfum greinilega fylgst að alla tíð, mamma átti (og á að sjálfsögðu enn) þessa bók og ég skoðaði hana hvað eftir annað þegar ég var krakki. Aftur og aftur og aftur ... Hún er mjög sérstök að því leyti að fremst eru myndir af öllum réttunum – oft er mörgum raðað saman á stórar myndir, jafnvel opnumyndir – uppskriftirnar koma svo aftast. Mér var nákvæmlega sama um uppskriftirnar en hefur alltaf fundist eitthvað sérlega heillandi við myndirnar, t.d. opnuna með pinnamatnum, síðuna með fylltu tómötunum, opnuna með öllu sænska saffranbrauðinu – og hvað þá pönnukökutertuna sem er ein á heilli opnu: hlaðin úr sjö þykkum pönnukökum með hindberjum og rjóma á milli, ofan á er svo hrúgað hindberjum og einhverjum öðrum berjum líka, litlum og dökkum (bláberjum?) – og svo hefur ekki bara verið stráð smávegis sykri yfir, heldur algjörri gommu. Dásamlegt. Ég minnist þess ekki að það hafi nokkurn tíma verið eldað upp úr bókinni á bernskuheimili mínu, og efast stórlega eftir um að ég eigi eftir að gera það. En ég á áreiðanlega eftir að skoða myndirnar oft og mörgum sinnum, alveg eins og þegar ég var krakki.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli