Meirihlutinn af samstarfsfólki mínu er í sumarfríi. Það þýðir að á hæðinni er ágætis vinnufriður, aldrei þessu vant, en það þýðir líka að allur fjandinn lendir á skrifborðinu mínu. (Mig minnir að ég hafi bloggað eitthvað svipað fyrir ári.) Reyndar hefur mér tekist að halda prjónauppskriftunum fjarri, en varð að gefast upp fyrir Andrési önd í dag þótt mér finnist enn sem fyrr mesta firra að gefa hann út á íslensku. Hefur dönskukunnáttu þjóðarinnar ekki hrakað verulega síðustu tuttugu árin? Það hlýtur að standa í beinu sambandi við íslenskan Andrés.
Reyndar er Andrés verðugt athugunarefni fyrir áhugamenn um málfar – einkum um upphrópanir. Æks! var mér t.d. fullkomlega ókunnug upphrópun þangað til í dag. Ó, já, orðaforði manns eykst stöðugt. Kannski ég ætti að skipta úr bókmenntanámi yfir í málfræðina og skrifa MA-ritgerð um upphrópanir í teiknimyndasögum með sérstakri áherslu á Andrés? Eða kannski gæti það orðið ágætis MA-ritgerðarefni í íslenskum bókmenntum. Með málfræðilegu ívafi.
Annars er það ekki bara Andrés sem tefur fyrir öðrum verkum, því ég hef líka lent í miklu kennslubókaprófarkaflóði sem virðist aldrei ætla að linna. Mun skemmtilegra hefur hins vegar verið að tefjast yfir barnabók eftir Madonnu (ákaflega sæt saga). En ég hef ekkert komist áfram í Rushdie-þýðingunni sem ég átti að vera búin að lesa yfir fyrir löngu. Úff.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli