þriðjudagur, 16. september 2003

Er ekki best að tepokablogga aðeins um síðustu daga?

Í fréttum er það helst að um helgina átti ég frí. Algjört 100% frí. Mesti munur. Reyndar hafa alveg liðið helgar síðustu mánuðina án þess að að vottur af vinnuafköstum mældist hjá mér – en það er langt síðan ég hef getað verið laus við samviskubit yfir því að vinna ekki. Það gerir gæfumuninn. Sennilega verður nokkur bið á að þetta endurtaki sig, ég er allavega búin að taka að mér nýtt aukaverkefni sem leggur næstu helgi undir sig. Og þegar því lýkur tekur annað trúlega við. Og svo enn annað. Og svo fer vinnuálagið að þyngjast í föstu vinnunni.

En allavega: naut þess semsagt að eiga frí og slappaði vel af, en gerði líka alveg helling, fór t.d. á bókmenntahátíðar-upplestur á föstudagskvöldið, og hafði reyndar stungið af úr vinnunni fyrr um daginn til að hlusta á pallborðsumræðurnar (sem voru því miður mun síðri en glæpasagnaumræðurnar daginn áður). Svo fór ég á þýðingamálþingið á bókmenntahátíðinni á sunnudaginn, fróðlegt að heyra í erlendu útgefendunum þar. Og á sunnudaginn hlustaði ég á Jón Yngva flytja fyrirlestur um íslenskar sveitasögur í Danmörku kringum stríð. Mjög gaman.

Í rauninni hefði ég átt að koma mjög vel undan þessari helgi, en vinnudagurinn í gær varð samt frekar misheppnaður. Morðtilraunir sólarinnar gerðu sitt til að klúðra deginum, og það bætti ekki úr skák að vera föst í texta á samansúrruðu stofnanamáli af verstu gerð. Það hafði umtalsverð áhrif á hugarástandið, sem var orðið svo óendanlega steikt að æskilegt var farið að mega teljast að á boðstólum yrðu úrræði sem gerðu aðilum kleift að verða þess valdandi með einum eða öðrum hætti að verknaður af því tagi er afsteiking gæti kallast yrði uppi á teningnum ...

Steikin í hausnum á mér var orðin svo well done að á endanum var ég farin að snúa út úr piparkökusöngnum:
Þegar lagafrumvarp fæðist
frumvarpssemjandi skal ekki
.........
Framhaldið er leyndó.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli