Þetta er nú spurning sem erfitt er að svara með afgerandi hætti. Eftir því sem ég man best var lestrarnám þitt mjög sjálfsprottið og fór í byrjun þannig fram að við svöruðum spurningum þínum um hvernig ætti að fara að því að lesa.Þannig var nú það. Bíð spennt eftir að komast að því hvort minningar pabba eru allt öðruvísi. :)
Byrjunin var auðvitað sú að mikið var lesið fyrir þig – þér til mikillar ánægju. Það fyrsta sem ég man og kalla má nám var þegar ég sat á Grænavatni og var að undirbúa mig fyrir enskukennslu í Skútustaðaskóla. Þá hreifst þú mjög af einni bls. eða opnu í kennslubókinni fyrir byrjendur en þar var stórum og litfögrum stöfum dreift á síðuna.
Eftir að hafa lært alla stafina man ég að þú spurðir oft um hvernig ætti að lesa og ég útskýrði með aðferðinni sem ég lærði í Ísaksskóla, þ.e. að hver stafur segði ákveðin hljóð, sumir kynnu að segja nafnið sitt sjálfir en aðrir (samhljóðarnir) „segðu“ ákveðin hljóð. Þetta var auðvitað önnur aðferð en pabbi þinn og amma höfðu lært eftir (þ.e. að kveða að).
Ég veit satt að segja ekki hvaða bækur ég á að tilgreina – en man mjög vel að þú spurðir út í fyrirsagnir í blöðum – mjólkurfernurnar voru vinsælar til æfinga. En auðvitað voru uppáhaldsbækurnar á þessum tíma Tumi og Emma í ýmsum útgáfum.
En eins og við höfum örugglega oft sagt þér uppgötvuðum við að þú værir komin af stað og búin að ná tökum á galdrinum þegar við vorum í bíltúr niðri við Reykjavíkurhöfn og allt í einu heyrðist úr barnastólnum í aftursætinu: E- s- j- a.
Þá sáum við að ekki var bara um að ræða sjónminni á nýmjólk eða setningar sem þú kunnir utan að úr Tuma og Emmu. Nákvæma dagsetningu hef ég ekki en þetta var örugglega á tímanum frá sept.–des. 1977.
Eitthvað rámar mig í að síðan hafi ýmislegt verið notað til æfinga – man að einhvern tíma höfðum við undir höndum „Gagn og gaman“ bók – en man ekki hvort það var á þinni tíð eða síðar þegar bræður þínir voru að ná tökum á galdrinum.
Ég skal svo bera mig saman við pabba þinn – það er ekki ólíklegt að hann geti bætt einhverju við og e.t.v. einhverju tilkomumeira lesefni – þótt ég efist um að þú getir státað þig af að hafa lært að lesa með því að stauta þig fram út Íslendingasögunum eða Biblíunni. Það er kannski best að ég sýni pabba þínum bréfið frá þér og biðji hann að svara – það væri fróðlegt að sjá hvort minni okkar ber saman!
fimmtudagur, 23. október 2003
Í gær var Nanna að spekúlera í lestarnámi, einkum af hvaða bókum fólk hefði lært að lesa, og heilmiklar umræður urðu á kommentakerfinu hennar. Ég reyndi að leggja mitt af mörkum, en gat þó fátt sagt, því ég lærði að lesa fyrir mitt minni og hef aldrei vitað almennilega hvernig það gerðist. Rámaði bara í að hafa heyrt að mjólkurfernur hefðu komið eitthvað við sögu. Fannst kominn tími til að vita meira um málið, þannig að ég sendi mömmu tölvupóst og bað um skýrslu. Skelli svarinu hér inn til að halda því til haga – og vonandi getur einhver haft af þessu gagn og einnig nokkurt gaman. Og – best að vera fyrri til áður en einhver skýtur á mig: að sjálfsögðu er tilgangurinn líka að segja frægðarsögur af sjálfri mér! Besta aðferðin við slíkt er nefnilega að hafa sögurnar eftir öðrum! ;-) En allavega: hér er bréfið frá mömmu:
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli