mánudagur, 6. október 2003

Grænavatnsfrænkur mínar taka sér bólfestu í bloggheimum þessa dagana, hver af annarri. Mikið er ég ánægð með þær. Fyrir nokkru fór Brynja að blogga; en hún dvelur um þessar mundir við óperustörf í Cambridge. Og nú er Guðný byrjuð líka; um hana mætti segja margt og mikið, en akkúrat um þessar mundir er mér ein spurning efst í huga: Ætlar konan að stofna dýragarð í Garðabænum?! ;-) Dálæti Guðnýjar á dýrum kemur kannski ekki á óvart – ein af mörgum skemmtilegum bernskuminningum mínum snýst um það þegar Guðný tók mig með að skoða mýsnar úti í Nýhúsum – við sátum þar hrikalega hljóðar (maður þorði varla að anda) og biðum þess að mýsnar færu á kreik að éta hænsnamatinn. Helsta iðja okkar nokkrum sumrum seinna var þó allnokkurs annars eðlis – þá var Guðný komin með bílpróf og þau voru ófá kvöldin sem við keyrðum einn hring kringum vatnið (keyptum e.t.v. ís úti í Reykjahlíð á leiðinni), og horfðum svo á Dirty Dancing þegar heim var komið. Hef ekki tölu á því hvað við horfðum oft á þá ágætu mynd þetta sumar – né því hvað ég hef horft oft á hana síðan. Alltaf jafn gaman (mér er alveg sama hversu margt er hægt að tína til á móti myndinni). Verð að fara að koma því í verk að halda Dirty Dancing vídeókvöldið sem er búið að vera á verkefnalistanum í a.m.k. tvö ár.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli