Gærdagurinn var skrýtinn en gærkvöldið var fínt. Það rofaði til þegar ég komst heim og gat haldið áfram að lesa glænýju bókina eftir Helen Fielding um Oliviu Joules og ofvirka ímyndunaraflið. James Bond paródía með meiru. Unaðslega léttúðug.
Ég á líka splunkunýja bók eftir Minette Walters. Það finnst mér ekki síður skemmtilegt.
Mér nægði nefnilega ekki að kaupa gommu af bókum í London um daginn. Ó, nei, ég pantaði fleiri bækur hjá Amazon.co.uk skömmu eftir að ég kom heim, þrátt fyrir að vísakortið væri að niðurlotum komið. (Fyrrnefndar bækur HF og MW voru ekki komnar út þegar ég var í London. En ég þurfti nauðsynlega að eignast þær. Nauðsynlega, tilfinnanlega og skilyrðislaust.)
Svo verð ég að fara að koma höndum yfir nýjar íslenskar bækur. Þetta gengur ekki lengur.
Eiginlega þyrfti ég nokkurra daga frí í vinnunni til að lesa.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli