miðvikudagur, 25. febrúar 2004

Í dag væri viðeigandi að skrifa nostalgíublogg um öskudaginn á Akureyri (söngæfingar öskudagsliða, búningaföndur o.fl. o.fl.) og hversu mjög hann hafi tekið hinni lélegu reykvísku eftiröpun fram (og geri vonandi enn). En það ætla ég ekki að gera. Allavega ekki í bili. En öskudagurinn var sko hörkuvinna.

Er bjartsýn á að dagurinn í dag verði skárri en gærdagurinn þegar ég fór kolvitlausum megin fram úr rúminu og eyddi vinnudeginum að mestu í að reka mig í, sulla niður kaffi og vera pirruð yfir fánýtum smáatriðum. Og ekki batnaði það eftir vinnu. Ég ætlaði að taka á mig krók á heimleiðinni, koma við í Melabúðinni og kaupa saltkjöt - en það reyndist uppselt (ábyggilega umfjölluninni í Fréttablaðinu að kenna). Þá gekk ég út í Nóatún – svo ég yrði örugglega komin nógu langt að heiman og gæti verið viss um að frjósa í hel á heimleiðinni. Í Nóatúni fékk ég saltkjöt og eldaði það þegar heim var komið. Fingurna kól sem betur fer ekki af mér á heimleiðinni en það lá nærri. Mistök að vera með asnalega hanska í staðinn fyrir lopavettlinga.

Hörmungum dagsins var samt ekki lokið. Ekki nóg með að bróðir minn tæki fagnandi á móti mér og æfði á mér nýjar aðferðir til að snúa fólk niður sem hann hafði lært þá um daginn. [Innskot: Drengurinn er í Lögregluskólanum. Hann er ekki enn búinn að koma heim og segja: „Í dag var okkur kennt að telja mótmælendur.“ En það hlýtur að koma að því. Ég bíð spennt.] Ó, nei. Það versta var eftir. Saltkjötið úr Nóatúni var nefnilega vont. Ég hef aldrei fengið eins vont saltkjöt. Sem betur fer tókust baunirnar ágætlega – enda setti ég ekki nema agnarlítið af saltkjötssoðinu í þær, sem var auðvitað eins óætt og kjötið sjálft. Baunirnar urðu sérstaklega góðar þegar ég setti ferskt kóríander út í þær. Mjög ánægð með þá hugdettu. En ótrúlega mörgum hefur fundist það svívirðileg helgispjöll að nota eitthvað "nýtt" út í þær. Skil þetta ekki. Heldur fólk kannski að gulrætur og rófur hafi alltaf verið ræktaðar á Íslandi?

Engin ummæli:

Skrifa ummæli