föstudagur, 6. febrúar 2004

Tíminn heldur áfram að vera skrýtinn. Þegar vekjaraklukkan hringdi í morgun var ég heillengi að átta mig á því hvort það væri föstudagur eða laugardagur. (Var býsna lengi í vinnunni í gærkvöld; svolítið rugluð í kollinum eftir allan hasarinn.) Á endanum tókst mér að snúa heilanum í gang og uppgötva að sennilega væri föstudagur og ég þyrfti þess vegna að mæta í vinnuna þótt mig langaði mest af öllu að fara aftur að sofa – en ég reyndi að hugga mig við það að ég myndi bara leggjast upp í sófa undireins og ég kæmi heim í dag og ekki hreyfast þaðan fyrr en ég færði mig inn í rúm.

En svo gerði ég þá „óþægilegu“ uppgötvun að ég yrði að mæta í vinnupartíi í kvöld. Ekki misskilja mig – það er sko nákvæmlega engin kvöð, enda bý ég við einhverja skemmtilegustu vinnufélaga sem til eru norðan Mundíufjalla og þótt víðar væri leitað. En ég er þreeeeeyyyyytt. (Er þetta til marks um að ég sé orðin öldruð? Þegar það þyrmir næstum yfir mig við tilhugsunina um skemmtanir?)

Eins gott að það er að koma helgi. Veit ekki hvenær í ósköpunum ég ætti annars að hafa tíma til að lesa allan bækurnar eftir Ian Rankin sem ég var að fá lánaðar án þess að stofna svefninum í stórhættu. Eins og stundum hefur gerst. Gerði eitt sinn þau mistök að byrja að lesa The Falls á mánudagskvöldi, gat að sjálfsögðu ekki hætt fyrr en ég sofnaði ofan í bókina, var illa sofin í vinnunni á þriðjudegi, gat samt ekki annað en klárað bókina um kvöldið (eða nóttina), var aftur illa sofin á miðvikudegi og ætlaði svo sannarlega að bæta úr um kvöldið og fara snemma að sofa. En slysin gera ekki boð á undan sér. Þennan dag kom Resurrection Men upp í hendurnar á mér. Og leikurinn endurtók sig.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli