Meðal þess besta í ferðinni var:
- Danskan mín virkaði prýðilega – ólíkt síðasta og eina skiptinu sem ég hef áður verið lengur en sólarhring í borginni. Þá var mér óþolandi oft svarað á ensku þótt ég talaði dönsku – en nú gerðist það aldrei. Ja, nema einu sinni og það tilfelli var svo asnalegt að það telst varla með. Ég var að kaupa Politiken í 7-eleven (leiðindabúlla) og afgreiðslumaðurinn sagði mér á ensku hvað blaðið kostaði. Ef maður kaupir danskt dagblað – ættu þá ekki að vera yfirgnæfandi líkur á að maður skilji dönsku? Hrmpf! Ein afgreiðslustúlkan skipti yfir í sænsku þegar hún talaði við mig – en ég get alveg lifað með því. Niðurstaðan: Annaðhvort hefur mér farið fram í dönsku eða viðhorf Dana til útlendinga sem reyna að tala málið breyst.
- Borðaði þrjú dýr sem ég hef ekki smakkað áður: krókódíl, kengúru og ál. Tvennt það fyrra fékk ég á ástralska veitingastaðnum Reef'n'Beef - krókódíllinn var góður og kengúran algjörlega æðisleg (þótt meðfylgjandi hnetum væri dálítið ofaukið). Mæli með þessu. Var líka mjög hrifin af reykta álnum; fékk hann á ákaflega sætum frokostrestaurant sem var búið að benda mér á – eins gott, því ég hefði trúlega aldrei farið inn á hann annars; hann er nefnilega frekar óaðlaðandi að utan, og þar að auki er nafnið þannig að manni dettur fyrst í hug einhver ömurleg túristabúlla. En sú er alls ekki raunin; innra byrðið er verulega indælt. Staðurinn heitir Tivolihallen og er á horni Vester Voldgade og Stormgade. Mæli líka með honum.
- Bíómyndin Forbrydelser er eftirminnileg. Mér leist ekkert sérlega á lýsinguna á henni – og hún hefði mjög auðveldlega getað orðið skelfileg – en hún var eiginlega mjög góð, vel leikin og lágstemmd; Dogma-stíllinn hæfði henni mjög vel – ef það hefði t.d. verið notuð áhrifstónlist eins og í „venjulegum“ myndum hefði hún orðið óbærilegt melódrama – en hún sveigði hjá nær öllum slíkum gildrum. Konan sem sat fyrir aftan mig skældi samt aðeins of mikið fyrir minn smekk.
- Fór á Ríkislistasafnið og eignaðist nýjan uppáhaldsmálara sem ég hafði aldrei heyrt um áður: Cornelius Norbertus Gijsbrechts, sem var uppi á síðari hluta 17. aldar. Almennt höfða 17. og 18. öldin í myndlist ekki til mín – þess vegna er sérstaklega gaman að uppgötva eitthvað frá þeim tíma sem maður fellur í stafi yfir. Verkin sem ég sá eftir hann voru svo mikil myndlist um myndlist – og þótt maður viti vel að það sé ekki bara nútímalegt heldur hafi slíkt hafi verið til á öllum tímum kemur það oft skemmtilega á óvart.
- Skemmtileg sýning á Listiðnaðarsafninu um danska hönnun síðustu 250 árin. Helsti gallinn við svona sýningar er að það megi ekki snerta neitt – maður þyrfti svo nauðsynlega að geta fundið áferðina á hlutunum, prófað að sitja í stólunum, athugað hvernig hnífapörin fara í hendi o.s.frv.
- Það var mjög fyndið þegar Hanna og Jóna Finndís sofnuðu á kaffihúsi seinnipartinn á sunnudaginn.
- Það var líka fyndið þegar við sögðum bandarískum túristum til vegar. Þeir bentu á götu á kortinu sínu og spurðu hvort við vissum hvar hún væri. Þeir voru að leita að Strikinu – og voru á því.
- Kaffihús, kaffihús, kaffihús. Mikið ofboðslega eru mörg góð kaffihús í þessari borg.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli