þriðjudagur, 13. apríl 2004

Páska„fríið“ í ár var einfalt í sniðum. Markmiðin sem ég hafði sett mér voru tvö: 1) Skúra íbúðina (hefur verið á dagskrá óheyrilega lengi). 2) Lesa ógrynni af próförkum. Kosturinn við að fá frí í vinnunni nokkra daga er nefnilega að þá gefst tími fyrir aukavinnuna. Með sama áframhaldi fer ég bráðum að lesa prófarkir í svefni. Málið er alls ekki að ég kunni ekki að segja nei. Vandamálið er að ég er alltof bjartsýn. Held alltaf að ég hafi mun meiri tíma en ég hef í raun.

Markmiðin voru sett til hliðar á skírdag sem fór allur í að hitta skemmtilegt fólk. Þeim tíma var vel varið en þar með var mannlegum samskiptum lokið þessa páskana. Föstudagurinn langi einkenndist í upphafi af svefninum langa (þó ekki þeim eina sanna) og sennilega veitti ekki af. Svo tóku prófarkirnar við. Skúringarnar héldu hins vegar áfram að vera hornreka. En ég moppaði. Má þá ekki segja að markmiðið hafi náðst að hálfu? Og fór líka með pappírsfjallið sem hafði safnast upp í eldhúsinu í endurvinnslugám. Gríðarlegur dugnaður við heimilisstörfin.

Á laugardaginn ákvað ég að kaupa mér páskaegg þótt mér finnist súkkulaðið í þeim ekkert sérlega gott. En maður verður að fá málshátt. Fyrirhöfnin varð ærin; það var ekki fyrr en í fjórðu búðinni sem ég fékk páskaegg. Í því var svo málshátturinn: Í myrkri eru allir kettir eins á lit. Er ekki enn búin að túlka þetta í samhengi við líf mitt. Kannski er þetta ábending um að í myrkri skeri prentvillur og ambögur sig ekkert frá öðrum stöfum á pappírnum. Efast þó um að gott væri að leggja þá hugsun til grundvallar – því það birtir alltaf aftur. Þannig að ég hélt áfram að eiga við prófarkirnar.

Milli þess sem ég boraði mig gegnum prófarkafjallið (sem er annars konar pappírsfjall en lenti í endurvinnslunni) horfði ég á mun fleiri Ally McBeal þætti en ég hef tölu á. Ally er mjög ágæt. Gerði á meðan tilraun með að prjóna peysu úr eingirni – sem lofar nokkuð góðu. Og svo föndraði ég meira við prófarkir.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli