Nú er ég endanlega heiladauð. Það hlaut að koma að þessu.
Ég fór inn í bankann minn á netinu í morgun til að millifæra peninga. Skráði allar upplýsingar, reikningsnúmer, kennitölu, upphæð - og leyninúmerið mitt. Smellti á 'áfram' - fór yfir upplýsingarnar en datt í hug að sennilega væri best að láta skýringu fylgja. Þannig að ég fór til baka. Skrifaði skýringuna og þurfti svo að slá leyninúmerið inn upp á nýtt. Sem hefði ekki átt að vera mikið mál - sérstaklega miðað við að mér hafði tekist það vandræðalaust nokkrum sekúndum áður.
En allt í einu hvarf stykki úr heilanum á mér. Höndin fraus yfir lyklaborðinu - númerið hafði gufað upp úr hausnum. Leitaraðgerðir hafa ekki enn skilað árangri.
Athyglisverðast er samt er meðan á þessu stóð var ég að hlusta á "Where is my mind?" með Pixies!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli