þriðjudagur, 29. júní 2004

Aðstoð við draumráðningar óskast.

Ég man næstum aldrei neitt sem mig dreymir. Þess vegna telst það til tíðinda að draumfarir síðustu nætur séu mér minnisstæðar.

Aðstæður voru þessar: Ég var algjörlega óforvarandis kölluð til þingsetu sem varaþingmaður Kötu Jakobs. Mér þótti ekkert undarlegt að hún væri á þingi en hins vegar kom mjög á óvart að ég væri varamaður hennar. Ennþá merkilegra var að sem varamaður Kötu lenti ég inni á þingflokksfundi Samfylkingarinnar. Síðar um daginn var þingfundur en þingsalurinn hafði ummyndast og var farinn að minna á breska þingið - með bekkjum o.þ.h. Á fundinum var leynileg skrifleg atkvæðagreiðsla þar sem allir áttu að skrifa niður nöfn þeirra fimm þingmanna sem þeir hefðu mesta trú á. Ekki man ég hver tilgangurinn var en ég setti Kötu í annað sætið á eftir Möggu Frímanns. Reyndar munaði minnstu að atkvæðið mitt yrði hunsað því talning var hafin og raunar langt komin áður en ég kom því til skila. Um niðurstöður atkvæðagreiðslunnar veit ég hins vegar ekkert.

Mér fannst þingmennskan leiðinleg og asnaleg og fannst ekki heldur fara saman að vera þingmaður eins flokks en þjóna jafnframt öllum hinum í vinnunni við skjalalesturinn. Eftir hálfan dag fór líka svo að ég sagði af mér þingmennsku. Fannst vinnan mín mun gáfulegri en þingsetan.

Þannig var nú það. Algjör steypa en þó nokkuð skýr söguþráður, ólíkt flestum af þeim fáu draumum sem ég man. Stóra spurningin er hvernig beri að túlka þetta. Er þetta forboði um pólitískar sviptingar? Er Kata á leiðinni yfir í Samfylkinguna? Verður Magga Frímanns formaður á næsta landsfundi og Kata varaformaður? Verður reynt að draga mig inn í leikinn en ég sný mig lausa á síðustu stundu?

Kata hefur lagt til að þetta sé til marks um pólitíska tilvistarkreppu mína. Ég hallast frekar að því að þetta sýni ánægju mína með að vera hætt pólitískum afskiptum. Að ég sé á réttum stað í hlýjum faðmi prófarkanna.

Svo er ábyggilega hægt að föndra verulega villtar túlkanir. Kommentakerfið stendur þeim til reiðu sem vilja leggja sitt af mörkum.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli