Fótboltaprinsipp - 2. hluti.
Það er gaman að spila fótbolta við fólk sem er jafnlélegt og maður sjálfur.
Það gerði ég í gærkvöld.
Kvennafótboltaliðið sem vinkona vinkonu minnar stofnaði í fyrra hefur semsé verið endurvakið. Man ekki hvort ég bloggaði um það þá - en við spiluðum vikulega í fyrrasumar, vorum iðulega eins og fávitar og stundum orðnar líkastar mæðiveikum rollum á endanum - en mikið hrikalega var þetta gaman. Og það breyttist ekkert þótt liðið lægi í dvala í vetur; gærkvöldið var stórskemmtilegt.
Það var fyrir tilviljun og allt að því í gríni sem mér var boðið að vera með - enda hvorki íþróttamannslega vaxin né þekkt fyrir áhuga á íþróttum, allra síst boltaíþróttum. Þegar ég bjó í Þýskalandi horfði ég samt töluvert á íþróttarásirnar í sjónvarpinu. Það segir reyndar mest um þýskt sjónvarp. (Man ekki hvort ég hef einhvern tíma komið því í verk að blogga um þýskt sjónvarp. Ef ekki er eiginlega kominn tími til.)
Hvað sem því líður, þá fannst mér sú hugmynd að ég færi að spila fótbolta fráleit þegar ég heyrði hana fyrst - en komst fljótt að því að hún væri mátulega fráleit til að vera sniðug. Það var líka skylda að kunna lítið eða ekkert sem hentaði mér afar vel.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli