Ég ætla ekkert að afsaka bloggfallið síðasta hálfa mánuðinn. Get svo sem upplýst að daginn eftir að ég bloggaði síðast var verulega léttúðugt blogg í undirbúningi - en þegar ég ætlaði að fara að skrásetja það hringdi síminn og ég fékk þær fréttir að góð vinkona mín hefði misst níu ára dóttur sína í hörmulegu slysi. Undir svoleiðis kringumstæðum hættir léttúðugt hjal um daginn og veginn og jarðálfinn Láka og álíka fánýta hluti að vera manni efst í huga.
Í gleðilegri fréttum er það hins vegar helst að ég fer í sumarfrí á morgun og er að tapa mér af tilhlökkun. Flýg til Kaupmannahafnar síðdegis á morgun, gisti eina nótt hjá Hönnu vinkonu minni, flýg svo áfram til Berlínar morguninn eftir, tek lest beint til Leipzig og verð þar í viku, fer svo til Berlínar til vikudvalar, flýg svo til baka til Kaupmannahafnar, gisti aftur hjá Hönnu eina nótt - og neyðist svo víst til að snúa aftur heim á þetta fúla land. En það er óþarfi að eyða tímanum í að kvíða heimkomunni - ætla frekar að einbeita mér að því að njóta frísins út í ystu æsar. Hef ekki átt alvöru sumarfrí síðan ég var tólf ára - en finnst líklegt að ekki verði aftur snúið eftir þetta. Sumarfrí eru ábyggilega ávanabindandi.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli