þriðjudagur, 24. ágúst 2004

Helgin hætti ekki að vera skemmtileg þegar menningarnótt lauk. Á sunnudaginn var líka mikið og gott prógramm. Svanný vinkona mín (nota bene: Svanný, ekki Svansý - þær eru ekki sama manneskjan) er að fara að gifta sig um næstu helgi - ekkert heimskulegt bíómyndabrúðkaup heldur ætla hún og verðandi eiginmaður hennar til sýslumanns á föstudaginn og vera bara í rólegheitum um kvöldið, síðdegis á laugardaginn verða þau svo með veislu fyrir ættingja og um kvöldið verður partí fyrir vinina. Afslappað og skynsamlegt. Og verður ábyggilega margfalt skemmtilegra en vandlega æfðu leikritin þar sem serimóníurnar eru svo stífar að enginn hefur tíma til að njóta dagsins.

Fyrir hönd illa forfallaðs vinkvennahóps (sem er alls ekki saumaklúbbur) tókum við Una að okkur að dekra við Svanný í tilefni af hnappheldunni. Við erum ógurlega lítið hrifnar af mannvonsku og kvikindisskap og því að fólk sé látið gera sig að fífli - við erum hlynntari því að maður sé góður við vini sína og það varð leiðarljós dagsins. Sóttum Svanný um hádegið - ég var búin að föndra sitthvað matarkyns - og við fórum í pikknikk í grasagarðinum. Sólin fór að skína undireins og við komum í garðinn og við höfðum það afar notalegt drjúga stund. Mér tókst auðvitað að klúðra hinu og þessu; mundi eftir venjulegum búrhníf en gleymdi tenntum (það gerði svosem ekkert til), gleymdi könnum fyrir teið (en við drukkum það þá bara úr glösum), byrjaði á því að svipta dúknum upp úr töskunni (því miður á ég ekki fræga pikknikkkörfu eins og sumir) og braut eitt af freyðivínsglösunum í leiðinni. Hefðbundinn brussugangur. Hvernig átti ég að muna að ég hafði vafið þau inn í dúkinn tuttugu mínútum áður? En þetta er ekki alvarlegt; glös á maður að nota og þá getur svona lagað bara gerst.

Við átum auðvitað á okkur gat, enda finnst okkur finnst öllum gott að borða. Þegar Svanný útskrifaðist úr háskólanum hélt hún útskriftarveislu heima hjá tengdaforeldrum sínum. Vinkvennahópurinn mætti að sjálfsögðu og tók hraustlega til sín af veitingunum eins og venjulega. Eftir á fréttist að við hefðum glatt tengdamóðurina verulega. Hún hefði verið í skýjunum yfir að fá ungar konur í heimsókn sem höfðu almennilega matarlyst og voru ekkert að tala afsakandi um hvað þær ætluðu að vera duglegar að hreyfa sig á næstunni þegar þær hlóðu á diskinn í þriðja skipti.

En aftur að sunnudeginum: Þegar búið var að næra líkamann rækilega var tímabært að næra andann þannig að við fórum í Ásmundarsafn stundarkorn en svo var kominn tími til að keyra af stað í Bláa lónið þar sem búið var að panta nudd handa stúlkunni. Það var klukkutíma prógramm en við Una notuðum tækifærið til að vera líka góðar við okkur sjálfar og fengum nokkurra mínútna axla- og höfuðnudd sem er óhætt að mæla með. Það er ekkert slæmt að mara í lóninu, horfa upp í himininn og láta nudda sig svolítið. Ég hafði aldrei komið í Bláa lónið áður og aldrei verið spennt fyrir því - en varð frekar impóneruð og komst að því að þetta er í alvörunni möst, bæði fyrir ferðamenn og fleiri, ekki bara glötuð túristagildra. Konan í afgreiðslunni fær reyndar ekki þjónustuverðlaun ársins, hvorki fyrir glaðlegt viðmót né nauðsynlega upplýsingagjöf (eða að vita almennt hvað hún var að gera þarna), en við reyndum bara að gleyma því. Alveg óþarfi að láta það eyðileggja daginn.

Veðrið var síðan svo gott að við ákváðum að keyra Krísuvíkurleiðina til baka. Ætli fyrirhugaðar framkvæmdir við Suðurstrandarveg hafi leitt til þess að það hefur ekkert verið spanderað í að láta veghefil fara mikið um veginn í sumar? Eins gott að við erum allar "utan-af-landi-lið" og ýmsu vanar. Þannig að við vorum ekkert að stressa okkur yfir þessu. Nutum bara útsýnisins - það var ekkert að því.

Svo var komið að síðasta atriðinu á dagskránni sem fólst að sjálfsögðu í því að borða meira - í þetta sinn á þeim góða stað Sjávarkjallaranum. Við fengum okkur hinn svokallaða "exotic menu" (af hverju er þetta ekki á íslensku á matseðlinum?) sem er eiginlega bland í poka - ýmsir réttir bornir á borðið og fólk skiptir þeim sjálft á milli sín. Forréttirnir voru svo æðislegir að við fengum næstum því fullnægingu á eftir hverjum bita eins og konan í Planet Food. Aðalréttirnir stóðust því miður ekki samanburðinn þótt ágætir væru, en leiðin lá aftur upp á við í eftirréttunum. Mmmmm....

Engin ummæli:

Skrifa ummæli