Ég er ekki endurnærð eftir helgina, enda meira en nóg að gera. Framan af gekk á með stöðugum skemmtilegheitum - fyrst var það hin stórfína doktorsvörn Sverris og frábær veisla að henni lokinni, mikið stuð og gleði. Það er svo merkilega gaman að skemmta sér með skemmtilegu fólki. Kvöldið eftir var svo veisla hjá Hugrúnu af góðu tilefni, þannig að skemmtanadagsverkin (eða -kvöldverkin eða -næsturverkin) urðu býsna drjúg.
Ég skrópaði bæði í morgunkaffi SHA og kröfugöngunni í gær. Þurfti að sinna uppsöfnuðum verkefni því ég er búin að vera með milljón skrilljón hluti á bakinu sem er algjörlega óþolandi. Stórhættulegt að hafa komist á bragðið með að eiga öðru hverju frí á kvöldin og um helgar - það er greinilega ávanabindandi og eykur manni leti.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli