Ég veit ekki hvort það er sæluvíman yfir nýju tölvunni eða eitthvað annað sem hefur valdið því að ég hef alveg gleymt að blogga upp á síðkastið. Ég missti meira að segja af þriggja ára bloggafmælinu mínu 28. maí.
Hef verið frekar upptekin við að tækninördast, bæði í nýju tölvunni, og í tengslum við nýja símann sem fjölskyldan gaf ömmu í afmælisgjöf og var fyrir misskilning keyptur læstur. En það reddaðist.
Stundum ræð ég ekki við mig af fögnuði yfir því hvað netið er æðislegt.
Annars er ég sígeispandi eftir að hafa af óviðráðanlegum utanaðkomandi ástæðum þurft að vakna fyrir allar aldir í morgun og vera þar að auki ekki búin að ná upp svefni eftir ævintýralega öflugt félagslíf um síðustu helgi. Í frábæru vinnupartíi á föstudagskvöldið eignaðist ég nýja skó og á rölti mínu heim undir morgun (úthald skjaladeildar var umtalsvert að vanda) lék ég mér við kött í garðinum við Listasafn Einars Jónssonar og skoðaði vandlega nýju göngubrúna yfir Hringbraut. Og svo var ég í æðislegu fertugsafmæli á laugardagskvöldið þar sem fólki hafði verið úthlutað ári á æviskeiði afmælisbarnsins til að hafa í huga við klæðaburð eða annað. Ég klæddi mig sem þorskastríð. Jamm og já.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli