miðvikudagur, 14. september 2005

Áhugi minn á að lesa meira eftir Karen Duve jókst ekki við að heyra talað við hana í gær, og upplesturinn í gærkvöld dugði ekki heldur til þess, enda var skáldsögubúturinn sem hún las greinilega unninn upp úr einni smásögunni sem ég las um daginn þannig að þetta var frekar vonlaust tilfelli hvað mig varðar.

Upplestur Þórunnar Valdimarsdóttur var hins vegar mjög ... hmmm ... eftirminnilegur - og það var sérstaklega gaman að fylgjast með Nick Hornby á meðan.

Það var síðan frábært að hlusta á Hornby lesa. Mér finnst nýjasta bókin hans ágæt - ekki eins góð og High Fidelity eða About a Boy, en fín samt. Það að láta bókina byrja á því að fjórar manneskjur í sjálfsvígshugleiðingum þvælast hver fyrir annarri er býsna sniðug aðferð til að tefla saman gerólíkum persónum. Hornby tekst ágætlega í bókinni að búa til rödd fyrir hverja persónu, og það skilaði sér vel í upplestrinum.

Því miður las Mehmed Uzun ekki á kúrdísku heldur á sænsku. Ég hefði svo gjarnan viljað fá að heyra hvernig kúrdískan hljómar.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli