- Ég lærði á þverflautu frá átta ára aldri til tvítugs og var farin að æfa fyrir áttunda stigið þegar ég hætti. Næstu árin á eftir spilaði ég dálítið, en nú hef ég ekki snert flautuna í fimm ár eða þar um bil. Ég sakna þess. Fresta því samt alltaf að opna flautukassann aftur - veit ekki af hverju. Kannski er ég hrædd um að kunna ekki lengur neitt. Eða eitthvað.
- Ég hef aldrei komið út fyrir Evrópu og finnst það mikil fötlun. Evrópa er svo agnar-pínulítil, þannig að heimsmyndin er augljóslega alltof þröng. Stefni að því að gera eitthvað í málinu. Mig langar líka að læra fleiri tungumál (og að læra þau mál betur sem ég kann eitthvað í núna).
- Ég fékk gleraugu á 25. ári. Augnlæknirinn sem mældi í mér sjónina var svo forviða á því að ég hefði komist af gleraugnalaus fram að þessu að hann spurði ítrekað hvort ég hefði virkilega aldrei verið með gleraugu. Þegar ég var búin að svara því neitandi í þriðja eða fjórða skipti spurði hann skelfingu lostinn: "Keyrirðu bíl?" - "Jaaaaá," svaraði ég, og bætti svo við í huggunartón: "en ofsalega sjaldan ..." Honum virtist ekkert létta við þetta.
- Ég var afar stilltur og prúður unglingur - held ég allavega. Unglingauppreisnin fólst sennilega helst í því að skrifa stærðfræði- og eðlisfræðiformúlur á piparkökurnar ein jólin - og þá skar ég líka út jöfnuna E=mc2 í laufabrauðsköku og teiknaði arkímedesarspíral (minnir að fyrirbærið heiti það) á eina tegundina af konfektmolunum sem ég gerði (það síðastnefnda varð reyndar að hefð). Foreldrum mínum fannst ég mjög skrýtin og þau héldu að þetta lýsti ískyggilegri rúðustrikun. Þau þekktu afganginn af eðlisfræðibrautarbekknum mínum greinilega ekki nógu vel (strax eftir stúdentspróf sá ég að mér og sagði skilið við raungreinarnar; mér finnst stærðfræði samt ennþá skemmtileg).
- Ég næ ekki með tungunni upp í nef. Augljóslega engin skáldataug í mér. Enda háir mér hvað ég er lítið lygin.
mánudagur, 19. september 2005
Parísardaman klukkaði mig. Ætli það sé ekki best að hlýða - hér eru semsagt fimm staðreyndir um sjálfa mig og rúmlega það:
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli