Hér er ég, hér er ég ... Hress og kát eftir frábæra ferð til Tallinn um helgina sem var nákvæmlega það sem ég þurfti eftir drjúga vinnutörn undanfarið. Nú er ég eiginlega búin að ákveða að gerast mjög selektíf á aukavinnu og hætta að taka að mér viðamikinn yfirlestur. Héðan í frá verð ég mögulega til viðtals um snyrtilegar síðuprófarkir eða yfirlestur á einhverju sérlega skemmtilegu (í styttri kantinum), en ekki risavaxin verkefni (þ.e. yfirlestur) - nema þá kannski fyrir góða vini, eða ef aðrar sérstakar ástæður eru fyrir hendi, eða ... Jæja, það kemur í ljós hvernig mér gengur að standa við þetta. En prinsippið er ágætt - held ég. Alveg óþarfi að vera heiladauð af óhóflegri vinnu, með svefninn í fokki o.s.frv. Er þetta ekki nokkuð gott plan?
En allavega: Tallinn var æði (útlista kannski nánar síðar). Mæli tvímælalaust með borginni. Mig langar að fara þangað aftur og ferðast þá líka eitthvað um landið.
Önnur mál: Ýmislegt ánægjulegt hefur gerst í netheimum síðustu vikur. Uppáhalds íslensku tímaritin mín, Tímarit Máls og menningar og Gestgjafinn, hafa opnað heimasíður sem er fagnaðarefni. Best af öllu er þó að tvær manneskjur sem eru mjög ofarlega á lista yfir uppáhalds fólkið mitt eru byrjaðar að blogga: Arna frænka mín og Kári bróðir minn. Kári er á interrail um Austur-Evrópu og ferðasagan hans er alls ekki leiðinleg.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli