Ég er búin að blogga heilmikið í huganum upp á síðkastið. Ótrúlegt að hugskeytin skuli ekki hafa skilað sér hingað inn. Ekki að það sé eitthvað að frétta, þvert á móti, líf mitt er afar tíðindalaust - en hins vegar ekki endilega leiðinlegt. Síðustu viku er ég t.d. búin að gera svo margt skemmtilegt að það hálfa væri nóg, t.d. fór ég á frábæran fyrirlestur Andra Snæs á mánudagskvöldið og eignaðist nýja uppáhaldsbók (Draumalandið - sem seinkaði för minni til hefðbundins draumalands því ég gat ekki hætt að lesa fyrr en vel var liðið á nótt). Ég sá Chaplin-myndina Sirkus í Bæjarbíói á þriðjudagskvöldið (hrikalega fyndin og skemmtileg), fór á föstudagskvöldið á Lisu Ekdahl tónleikana sem voru æðislegir, sat skemmtilegt myndhvarfamálþing í gær og dreif mig svo á Túskildingsóperuna (frábær fyrir hlé en það hefði mátt skera niður megnið af atriðunum eftir hlé).
Skemmtilegur atburður af allt öðru tagi er að á fimmtudagskvöldið horfði ég á einhverja leiðinlegustu kvikmynd sem ég hef nokkurn tíma séð - en það var samt gaman því að 1) ég var í svo góðum félagsskap, 2) margar aðrar kvikmyndir verða bærilegar eða jafnvel góðar við samanburðinn, 3) ég fékk rækilega útrás fyrir uppsafnaða kaldhæðni. - Það var líka huggun harmi gegn að fólkinu í kvikmyndinni virtist leiðast a.m.k. eins mikið en okkur sem horfðum á hana. En ég mæli samt ekki með Dauðanum í Feneyjum nema fólk vilji kynna sér sérstaklega hversu langdregnar og melódramatískar bíómyndir er fræðilega mögulegt að búa til.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli