Daginn eftir að ég kvartaði yfir því að sumarið væri leiðinlegt ákvað ég að hætta að láta mér leiðast og dreif mig á
salsanámskeið. Bætir, hressir, kætir. Bíð spennt eftir næsta námskeiði.
Þar að auki hef ég ýmis tilhlökkunarefni næstu mánuðina. Hér eru þau helstu:
- tónleikarnir með Belle & Sebastian, og Emilílönu, á Borgarfirði eystra nú í júlílok, og stutt frí í Mývatnssveit og á Akureyri eftir það,
- tveggja vikna ítölskunám í Napólí í september (og stopp í Berlín og Róm á leiðinni þangað),
- helgarferð til Berlínar með vinnufélögunum í októberlok - og ég ætla út viku á undan þeim (ekki búin að ákveða hvað ég geri, en það er líklegt að ég skipti vikunni milli Leipzig og Berlínar).
Jamm, ég er búin að komast yfir það að Ítalir skuli hafa unnið Þjóðverjana í fótboltanum - tók bara þýsku línuna sem felur í sér að gleðjast einlæglega yfir þriðja sætinu og bara öllu heimsmeistaramótinu, og líta á þýska liðið sem
"Weltmeister der Herzen". Þess vegna er ekkert því til fyrirstöðu að halda áfram að læra ítölsku og ég er semsagt búin að skrá mig í
málaskóla í Napoli í tvær vikur í september. Og þetta stefnir í að verða afbragðs ferðalag: ég flýg til Berlínar þriðjudaginn 29. ágúst fyrir sáralítinn pening,
þökk sé heita pottinum hjá Iceland Express, flýg síðan áfram til Rómar þremur dögum seinna (á föstudegi), verð þar væntanlega fram á sunnudag og tek þá lest til Napólí og verð semsagt á ítölskunámskeiði í tvær vikur. Því miður neyðist ég sennilega til að koma heim aftur - en nákvæmlega hvenær og hvernig kemur bara í ljós síðar.
Það skyggir fátt á gleðina núna - nema reyndar strætóhatararnir. Mæli með
greininni hans Ármanns um efnið.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli