Tíminn líður... Ég er auðvitað löngu komin frá Ísafirði. Þar komst ég að því að á laugardagsmorgnum fer rúta yfir á Brjánslæk sem hefði hentað mér ágætlega (sjá hörmungasögu í síðustu bloggfærslu) en úr því ég var búin að panta flugið suður á föstudagskvöldinu hélt ég mig bara við það. Og við náðum að gera býsna margt þótt dagarnir væru ekki nema tveir: gengum mikið um Ísafjörð, borðuðum helling af góðum mat þar (ég var mjög ánægð með ísfirska matsölustaði), fórum á tónleika með Flís á miðvikudagskvöldinu, fórum út í Vigur á fimmtudaginn, keyrðum í bæði Bolungarvík og Súðavík sama kvöld, keyrðum enn meira daginn eftir, alla leið í Selárdal á endanum sem var frábært - og þetta var allt sérlega skemmtilegt, veðrið frábært og ferðin bara fullkomin. Mér finnst Ísafjörður líka afbragðs bær. Alvöru bær með miðbæ og svoleiðis, ekki eins og flestir íslenskir þéttbýlisstaðir sem eru stök hús sem eru nálægt hvert öðru eins og fyrir hálfgerða tilviljun. Og það virðist heilmikill metnaður til að gera góða hluti þarna á svæðinu. Ég ætla ekki að láta tuttugu ár líða þangað ég fer aftur til Ísafjarðar (ég hafði semsagt komið þangað einu sinni áður - það var víst 1986 og síðan munu vera tuttugu ár sem mér finnst ótrúlegt).
En nú er liðin ein og hálf vika frá því að ég kom aftur. Síðan hefur fátt gerst - og þó: ég er dottin á kaf í fótboltann! Vona að Þjóðverjar hafi þetta - ég er orðin mjög stressuð fyrir kvöldið og finnst þýskir fjölmiðlar orðnir óhóflega sigurvissir. En þýska liðið ætti fullkomlega skilið að fara alla leið.
Ég er svo langt leidd í fótboltaáhuganum að á föstudaginn klæddi ég mig í þýsku fánalitina - og aftur í dag. Þar að auki var ég að lakka neglurnar í sömu litum. Svo vona ég að Stefán verði búinn að endurnýja Köstritzer-birgðirnar í Friðarhúsi fyrir kvöldið.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli