þriðjudagur, 24. apríl 2007

Ég er búin að vera lasin - mér til ómældra leiðinda. Skil ekkert í því að ég sem er venjulega afbrigðilega heilsuhraust skuli hafa veikst í annað skiptið á árinu. Eða jú, reyndar er það alveg skiljanlegt: venjulega klæði ég mig eftir veðri en drjúgan hluta af síðustu viku reyndi ég að afneita því að það væri kalt. Fyrir það hefndist mér rækilega og það hefur reynt töluvert á þolinmæðina. Svo hef ég vaknað stirð á morgnana því ég hef legið asnalega til að komast hjá því að drukkna í eigin hori og síðan hef ég orðið öðruvísi stirð á daginn af því að liggja óhóflega uppi í sófa. Allsherjar bjánaleg keðjuverkun. Nú skil ég hvernig fólk fer að því að leggjast í kör. En ég er að hressast og kemst vonandi í vinnuna á morgun.

Sennilega er kominn tími á meiri getraun. Hér er tilvitnun úr einni af bókunum sem hefur stytt mér stundirnar síðustu dagana. Hvaða bók byrjar svona?

"X var órótt. [...]

Hann sat grafkyrr. Það var fyrsta einkennið. Teinréttur. Með krosslagða handleggi. Hver einasti vöðvi hreyfingarlaus.

Nema vöðvarnir sem stjórnuðu munninum.

Það var annað einkennið.

Og jafnvel það hefði ekki legið í augum uppi ef sígarettan hefði ekki komið til. Varirnar sýndust hreyfingarlausar. Þær voru eins og mjótt, beint strik þvert yfir langleitt og beinabert andlitið. En samt var sígarettan á milli þeirra á fleygiferð, dansandi. Hún var á eilífu flökti milli munnvikanna í þessum munni sem virtist svo hreyfingarlaus."

Engin ummæli:

Skrifa ummæli