Í gær birtist grein í Fréttatímanum (bls. 31) þar sem hópur áhugafólks um bókmenntir og jafnrétti gagnrýnir kynjahlutfallið í sjónvarpsþættinum Kiljunni. Ég er meðal þeirra 27 sem undir greinina skrifa.
Ýmiss konar umræður spunnust fljótt af greininni. Til dæmis svaraði Egill Helgason greininni fljótt með blöndu af afneitun, réttlætingu, rangtúlkun og útúrsnúningum og stór hluti af kommentunum við pistilinn var af sama meiði. Þótt ég hafi fram að þessu reynt að forðast kommentakerfið á Eyjunni gengu viðbrögðin við rökstuddum og málefnalegum ábendingum svo fram af mér að ég lét mig hafa það að skrá mig inn á Eyjuna og tjá mig tvisvar (hér og hér).
Kristín Parísardama fjallar vel um hluta af viðbrögðum Egils á bloggsíðunni sinni og ég ætlaði að fara að skrifa komment þar þegar mér datt í hug að endurlífga þessa síðu frekar.
Það kemur kannski ekki beinlínis á óvart að Egill geti ekki tekið gagnrýni, það hefur margoft sést gegnum tíðina, en svör hans hljóta samt að fara að nálgast einhvers konar met í afneitun og einbeittu skilningsleysi.
Hluti af viðbrögðum Egils er að fara fram á að við sem höfum gagnrýnt hann tilgreinum einstakar konur sem við teljum útilokaðar. Þessi krafa er enn ein tilraun til að drepa umræðunni á dreif. Vandinn er almennari og víðtækari en svo að það sé einhver lausn að telja upp nöfn. Það væri hægt að velta upp mörgum atriðum í þessu sambandi en í bili ætla ég að láta mér nægja að benda á tvö umhugsunarefni.
Eitt umhugsunarefnið gæti t.d. verið hvort þröskuldurinn er lægri fyrir karla en konur. Ég held að öllum væri hollt að íhuga stundum þegar karl sést eða er tekinn til umfjöllunar í sjónvarpi og víðar hvort það sama hefði gerst ef viðkomandi væri kona. Í framhaldinu mætti þá íhuga hvort það séu kannski ýmsar konur utan sjóndeildarhringsins sem mættu alveg vera í augsýn.
Annað umhugsunarefni eru þau efnissvið sem eru valin til umfjöllunar. Eftir kirkjugarðsinnslögin með Guðjóni Friðrikssyni hefði t.d. kannski verið upplagt að hugsa eitthvað á þessa leið: Jæja, þarna komu nú fjölmargir karlar við sögu, er ekki upplagt að gera eitthvað næst þar sem meira ber á konum?
Einn af mörgum möguleikum til þess gæti verið að fara á almenningsbókasöfn og tala bæði við starfsfólkið og gestina um bókasöfnin, hvernig þau eru notuð, lestrarvenjur o.s.frv. Þar yrði enginn vandi að finna konur.