Jæja, óskaplega er ég búin að vera léleg í blogginu síðustu daga. Svona er það þegar atburðirnir safnast upp hjá manni; hörmungar föstudagsins, skemmtilegheit laugardagsins og svo framvegis. Best að koma sér að efninu:
Á föstudaginn hugsaði ég með mér að sennilega væri kominn tími til að hætta að sofa á verstu dýnu í heimi og brá mér í Rúmfatalagerinn til að kanna hvað væri hægt að fá þar. Tvær dýnur komu til greina en ég ákvað að hugsa mig aðeins um. Mjög fljótlega eftir að ég kom aftur í vinnuna ákvað ég að vandræðast ekkert yfir þessu lengur heldur kaupa einfaldlega dýrari dýnuna og var svo ánægð með þá ákvörðun að ég dreif mig samstundis aftur í búðina. Ég var farin að sjá það í hillingum að geta farið að sofa á einhverju skikkanlegu. Kannski gæti ég hætt að leika prinsessuna á bauninni, þyrfti ekki lengur að hlaða undir mig sængum til að reyna að lifa nóttina af. Kannski myndi ég einhvern tíma vakna úthvíld til tilbreytingar. Kannski færi ég að sofa sjaldnar yfir mig. Og ef til vill yrði líf mitt að öllu leyti dásamlegt upp frá þessu.
Ég gekk glaðbeitt inn í búðina og fann þar indælan afgreiðslupilt sem vildi allt fyrir mig gera, en hann gat ekki breytt þeirri óumflýjanlegu staðreynd að dýnan var búin í þeirri stærð sem ég vildi. Hann hringdi út um allt til að athuga hvort einhvers staðar leyndist eitt stykki, en allt kom fyrir ekki.
Ég hélt sár og svekkt í vinnuna aftur og þegar vinnudeginum lauk var fjarri því að ég væri orðin hið minnsta sátt við tilveruna aftur. Auk þess var ég dauðþreytt, en sá ekki fram á að eiga eftir að hvílast almennilega á næstunni (þar sem ég þyrfti að halda áfram að sofa á dýnu sem var næstum því verri en ekkert). Lífið var ömurlegt!
Það var kominn tími til að grípa til örþrifaráða. Nú yrði ég að kanna sannleiksgildi þeirrar hugmyndar sem sumir sjónvarpsþættir breiða út: að það sé allra meina bót að kaupa sér skó.
Skókaupin gengu mun betur en fyrri tilraunin til að eyða peningum. Áður en langt var um liðið var ég búin að festa kaup á þrennum skóm! Samt leið mér ekkert betur.
Síðan þetta gerðist hefur Una vinkona mín reyndar bent mér á að sennilega hafi ég bara ekki keypt nógu dýra skó. Það að kaupa þrenna skó fyrir lægra verð samtals en eitt par undir venjulegum kringumstæðum geti tæplega dugað. Frekari rannsókna á sálrænum áhrifum skókaupa er því augljóslega þörf.
Jæja, þótt helgin byrjaði svona héldu hörmungarnar blessunarlega ekki áfram. Laugardagurinn var mun skemmtilegri, því um kvöldið hitti ég Svansý og Palla á kaffihúsi. Þeim tíma var vel varið.. Svansý var reyndar rúmum klukkutíma of sein (!!!) en við Palli borðuðum bara í rólegheitum, ágætis nautakjöt. Það er að verða síðasti sjens í bili fyrir Palla að neyta svoleiðis fæðu því hann er að fara til langdvalar í helsta heimaland gin- og klaufaveiki og kúariðu. Palli er ekki enn byrjaður að blogga þótt langt sé síðan hann lofaði bót og betrun í þeim efnum. Vona að úr þessu fari að rætast.
Jæja, við sátum á Vegamótum alllengi og skemmtum okkur hið besta þangað til leiðinleg tónlist sem var þar að auki of hátt stillt fældi okkur burtu (einum of algengt vandamál). Við gengum af stað án takmarks og tilgangs, könnuðum í fyrstu Kaupfélagið en vorum snögg að komast að þeirri niðurstöðu að þar væri leiðinlegt. Þá varð ferðin ævintýralegri, því Svansý vildi endilega kynna okkur fyrir Club Diablo. Við Palli þóttumst vita að það væri einkennilegur staður og leist ekki meir en svo á hugmyndina, en féllumst þó á að líta þarna inn fyrir dyr á leiðinni en taka svo stefnuna á Vídalín og athuga hvort þar væri eitthvað gaman. Club Diablo var vissulega einkennilegur staður, mjög einkennilegur, en á nokkuð skemmtilegan hátt. Við Palli urðum mjög fljótlega mun sáttari við þá hugmynd að dvelja þar en við höfðum verið áður, en héldum okkur þó við fyrra plan. Á Vídalín stoppuðum við allnokkurn tíma, en … æ, ég veit ekki hvað það var, kannski vorum við ekki nógu drukkin eða eitthvað. Alla vega fannst mér ekkert sérlega skemmtilegt þar. Þannig að við héldum aftur á Diablo og létum það ekkert á okkur fá þótt við hækkuðum meðalaldurinn greinilega meira en góðu hófi gegnir, heldur skemmtum okkur hið besta.
Það var gott að geta sofið út á sunnudaginn, þótt það hefði verið mun betra í skikkanlegu rúmi, en það verður ekki á allt kosið. Sá dagur leið síðan í tíðindalausum rólegheitum, ég hitti Unu og Svanný (sem er ekki sama manneskjan og Svansý) á kaffihúsi. Gott og gaman. Svo rann mánudagurinn upp og enn ein vinnuvikan hófst. Og ég þarf að halda áfram að sofa á verstu dýnu í heimi enn um sinn.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli