Það er rétt hjá Ásu að ég var að leita að Ísfólksbókum í Kolaportinu á laugardaginn. En sú leit bar því miður engan árangur. Hins vegar rakst ég á Nancy-bók sem ég ákvað að kaupa, og þegar ég sá síðan Nancy-bók á ensku í næsta bás á eftir var ekki hægt annað en að kaupa hana líka. Kápumyndin á henni er með eindæmum ljót.
Hvað á það annars að þýða, Ása, að njósna svona um mig úr fjarlægð?! Mér finnst svindl að þú vitir núna hvernig ég lít út en ég þekki þig ekki í sjón!!!
Þótt engar Ísfólksbækur hafi orðið á vegi mínum um helgina var hún samt prýðileg. Úr Kolaportinu lá leiðin til að fylgjast með Gay Pride; gangan var stórglæsileg og þjóðhátíðarstemmning í bænum. Því miður gat ég ekki fylgst með nema stutta stund niðri á Ingólfstorgi, vegna þess að Hanna vinkona mín er á landinu í örfáa daga (hún býr í Malmö og vinnur í Kaupmannahöfn, en er reyndar að fara að flytja aftur til baka yfir sundið), og hún og nokkrar vinkonur okkar í viðbót voru að koma í mat til mín. Þar sem planið var ekki að gefa þeim hrátt lambalæri að éta komst ég að því að sennilega væri best að drífa sig heim og fara að elda. Á leiðinni hitti ég að vísu heilmargt fólk sem ég þekkti og þurfti að spjalla við, þannig að tíminn var orðinn ansi naumur þegar ég loksins komst heim. Sem betur fer hafði ég gert forréttinn daginn áður, annars hefði þetta sennilega endað með ósköpum! En þetta hafðist allt á endanum og kvöldið var stórskemmtilegt.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli