Leitin að Ísfólkinu hélt áfram í dag, því á leiðinni heim úr vinnunni kom ég við í Góða hirðinum þar sem er hægt að fá bækur fyrir lítinn pening, en því miður voru engar Ísfólksbækur til þar frekar en í Kolaportinu. Það kom þó ekki í veg fyrir að ég héldi áfram að kaupa einkennilegar bækur (þótt ekki væri það Nancy í þetta skiptið) því ég rakst á þá ágætu bók Holdið er torvelt að temja eftir Snjólaugu Bragadóttur og greip hana samstundis. Þá held ég að mér sé búið að takast að eignast allar bækur Snjólaugar (sem eru tólf) nema þá fyrstu, Næturstað. Auglýsi hér með eftir henni!
Ég keypti líka tvær matreiðslubækur, og Lottu í Ólátagötu eftir Astrid Lindgren, og Dóru eftir Ragnheiði Jónsdóttur (sem ég átti reyndar fyrir en í annarri útgáfu), og krimma eftir Ian Rankin, The Falls. Hef áður lesið einn krimma eftir Rankin, sem var ágætur, þótt sjónvarpsþættirnir hafi það fram yfir bækurnar að þá fær maður að sjá og heyra í John Hannah, sem leikur lögguna John Rebus.
Síðast en ekki síst festi ég kaup á bókinni Abba: The Name of the Game sem er án efa stórfróðleg þótt ég efist um að hún standist snilldarlegri Múrgrein Kötu snúning. En hún kostaði bara fimmtíukall eins og aðrar bækur á útlensku í búðinni, þannig að það var ekki annað hægt en leyfa henni að fljóta með. Og verðið er að öðru leyti eftir þessu. Íslensk skáldverk kosta 200 kr., þýdd skáldverk 100 kr., barnabækur eru líka á 100 kr. og bækur á útlensku eru sem sagt á 50 kr. Annars konar bækur eru reyndar verðlagðar sérstaklega, til dæmis kostuðu matreiðslubækurnar sem ég keypti 300 kr. hvor og voru því mun dýrari en hinar bækurnar þótt seint geti þetta talist há upphæð. Fullkomlega til fyrirmyndar og ákaflega gott fyrir bókasjúklinga eins og mig.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli