Molbúarnir eru með könnun á síðunni sinni um það hvaða ökutæki sé mest ógnvekjandi af öllum. Ég þekki ekkert af þessum tækjum – sé að þetta er sennilega töluvert lókal – en get ekki annað en bent á það að þarna vantar eitt ökutæki. Hvaða ökutæki? spyrja þá sennilega einhverjir. Það kemur fram í eftirfarandi sögu.
Einu sinni vorum við Kári bróðir minn (sem er einn af fyrrgreindum Molbúum) á leiðinni austur í Mývatnssveit og lentum á eftir bíl í Víkurskarðinu sem virtist í fyrstu venjulegur sendibíll. Þar kom að ég gat farið fram úr honum og þá gerðum við óþægilega uppgötvun: þetta var nefnilega Brúðubíllinn. Umtalsvert áfall, en þó ekkert á við það þegar við vorum komin ögn lengra. Þá æpti Kári upp yfir sig: „Neeeiii!!!!!!! Helga Steffensen er við stýrið!!!“
Ég fékk svo mikið sjokk að ég keyrði næstum út af.
Eins og flestir vita hefur Brúðubíllinn valdið íslenskum börnum sálarkvölum áratugum saman. Vonandi hafa nógu margir átt sama láni að fagna og nokkrir fastagestir (eða íbúar) á kaffistofunni í Árnagarði sem starfræktu óformlegan stuðningshóp um tíma í hittiðfyrra og veittu hver öðrum síðbúna áfallahjálp. Við það varð meðal annars til hið hentuga lýsingarorð lillagulur. Kannski verður sagan af því sögð síðar á þessari síðu.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli