„Mér finnst rigningin góð ...“ Ekki síst þegar ég heyri hana bylja á húsinu og get verið inni í rólegheitum. Þegar maður býr uppi í risi í bárujárnsklæddu timburhúsi eins og ég og rúmið manns er undir súð sem rigningin dynjur kröftuglega á er ógurlega gott að halda sig undir sæng. Færa sig í mesta lagi fram í sófa eins og ég gerði langt fram eftir degi í dag. Svo dreif ég mig reyndar á fætur og fór í langan, langan göngutúr. Það rigndi svo mikið að göturnar breyttust í lækjarfarvegi og ég hefði orðið holdvot inn að beini ef það hefði ekki rifjast upp fyrir mér áður en ég lagði af stað að ég á fína, rauða regnhlíf. Ef ég ætti líka stígvél hefði ég hoppað í pollunum.
En nú er ég komin heim aftur og ætla að fara að elda mér eitthvað gott og halda svo áfram að liggja í leti. Því miður virðist sjónvarpið mitt aftur vera að tapa sér þannig að mér virðist ætla að ganga illa að horfa á allar myndirnar um geðveiku konurnar sem ég var búin að taka á vídeó. Kannski ég dragi fram bækur um sama efni í staðinn?
Engin ummæli:
Skrifa ummæli