laugardagur, 3. ágúst 2002

Var að koma af bæjarrölti í rigningunni sem var ósköp notalegt, fór fyrst á eitt kaffihús, svo á annað, gekk síðan um og gerði nokkrar tilraunir til að fara á eitt kaffihús í viðbót. Þær tvær fyrstu mistókust þar sem viðkomandi kaffihús voru bæði lokuð en sú þriðja tókst. Ætlaði samt að vera pínu aðhaldssöm og ekki fá mér að borða úti, en lét freistast á þessu þriðja kaffihúsi, Húsi málarans, til að fá mér fisk dagsins, sem reyndist vera grillaður lax, sinnepssmurður með saffranhrísgrjónum og guðdómlegri sítrónusósu. (Hvað eru mörg s í því?!) Óheyrilega gott og kostaði bara 990 kr. Mjög ánægð með svona.

Á bæjarröltinu kom ég líka við í Eymundsson þar sem ég freistaðist líka til að eyða peningum og keypti tvo geisladiska á 2 fyrir 1000 kr. tilboði, Arena með Duran Duran og Blondie – the essential collection sem stendur þó ekki alveg undir nafni, Heart of Glass er til dæmis ekki með, en er samt skemmtilegur diskur. Gaman. Reyndar á ég Arena á gamaldags vínylplötu, en sú sorglega staðreynd að ég á ekki plötuspilara hefur komið í veg fyrir að ég hafi getað hlustað á hana býsna lengi. Sem er mikil synd.

Arena hefur meðal annars það sögulega gildi í lífi mínu að vera fyrsta platan sem ég keypti mér sjálf. Það gerðist í Vöruhúsi KEA þegar ég var svona tíu ára og ég greiddi fyrir með inneignarnótu sem ég hafði fengið fyrir að vera eitt af þrjátíu börnum í bráðskemmtilegri auglýsingu fyrir KEA-hangikjöt! Reyndar minnir mig að inneignarnótan hafi ekki dugað alveg fyrir plötunni þannig að einhverju fé þurfti að bæta við svo hún gæti komist í eigu mína en það er önnur saga. Þetta var á þeim tímum þegar stríðið milli aðdáenda Wham og Duran Duran stóð sem hæst með lesendabréfum í dagblöðum og ég veit ekki hverju. Eins og skarpir lesendur eru sennilega þegar búnir að geta sér til hélt ég með Duran Duran. Orðalagið „að halda með“ í þessu samhengi er auðvitað ótrúlega fyndið en það var vægast sagt útbreitt á þessum tíma. Spurningin „hvort heldurðu með Wham eða Duran Duran“ heyrðist stöðugt á skólalóðum úti um allt land. Einhver þriðji (eða fjórði eða fimmti) valkostur taldist ekki vera til.

Þetta voru án efa athyglisverðir og undarlegir tímar þótt maður vissi það ekki þá. Svoleiðis uppgötvast sennilega aldrei fyrr en eftir á. Og ótrúlegustu hlutir hafa breyst. Vöruhús KEA er til dæmis ekki lengur til! Allt er í heiminum hverfult!

Engin ummæli:

Skrifa ummæli